Dagsetning                       Tilvísun
31. janúar 1992                            378/92

 

Tekjuskráning virðisaukaskattsskyldra aðila.

Með bréfi yðar, dags. 10. maí sl., er nokkrum spurningum beint til ríkisskattstjóra og verður þeim svarað hér á eftir í sömu röð og í bréfinu:

  1. Þarf eyðublað staðgreiðslunótu, sem sjóðvélarstrimill er heftur við, að vera í fyrirfram númeraðri röð? Í hve mörgum ritum þarf eyðublað staðgreiðslunótunnar að vera?

Svar: Ekki er nauðsynlegt að eyðublað reiknings, sem smásöluverslun eða þjónustusali er nær eingöngu selur til endanlegra neytenda gefur út samhliða skráningu í sjóðvél, sé fyrirfram númerað. Nægilegt er að eyðublöðin séu í tvíriti. Seljandi skal varðveita samrit í réttri útgáfuröð. Sjá nánar minnisblað, dags. 20. feb. 1991, sem hjálagt fylgir.

  1. Er heimilt að skrifa út formlega reikninga i einu lagi í lok vinnudags eftir upplýsingum sem færðar eru í tölvukerfi (dagbók) þegar vara er afhent?

Svar: Í reglugerð nr. 501/1989, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, er svo fyrir mælt að reikning skuli gefa út samtímis og sala eða afhending á sér stað, þar með talin hvers konar afborgunar- og lánsviðskipti. Ríkisskattstjóri telur þó nægilegt að skráning í tölvukerfi eigi sér stað við afhendingu þótt reikningar séu ekki prentaðir út fyrr en við lok vinnudags.

  1. Fullnægir það ákvæðum reglugerðar um sjóðvélar (nú reglugerð nr. 531/1989) að geta prentað safntölur (grand total) hvenær sem þess er óskað þó svo þær séu ekki prentaðar út við hvert uppgjör.

Svar: Ríkisskattstjóri skilur ákvæði nefndrar reglugerðar um söluskráningar- og bókhaldskerfi (3. mgr. 1. gr.) þannig að í uppgjöri hvers dags skuli liggja fyrir upplýsingar um sölu dagsins og heildarsölu (grand total) sem skráð hefur verið í kerfið.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.