Dagsetning Tilvísun
4. júní 1993 480/93
Þjónusta fjármálafyrirtækja
Vísað er til bréfs yðar, dags. 24. nóvember 1992, þar sem spurt er, hvort fjármála-fyrirtæki, sem taka að sér sem verktakar allan rekstur lífeyrissjóðs gegn fastákveðinni þóknun, séu undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.
Samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nær skattskylda til allrar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, nema hún sé sérstaklega undanþegin skv. 3. mgr. 2. gr. laganna. Skv. 10. tl. 3. mgr. 2. gr. laganna er „þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun“ undanþegin virðisaukaskatti.
Það er meginregla að skýra beri skattaundanþágur þröngt, þ.e. að slík ákvæði eru ekki látin ná til fleiri tilvika en tvímælalaust felast í þeim. Ríkisskattstjóri túlkar ákvæði 10. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga þannig, sbr. greinargerð með frumvarpi að virðis-aukaskattslögum, að vinna einstakra aðila sem telst fyllilega sambærileg við starfsemi lánastofnana skv. ákvæðinu sé skattfrjáls með sama hætti, sbr. bréf frá gjaldadeild ríkis-skattstjóra nr. 5/1990. Jafnframt er þóknun fyrir vinnu, sem unnin er fyrir lánastofnanir undanþegin skattskyldu þegar telja má vinnuna eðlilegan og nauðsynlegan þátt í starf-semi þessara aðila.
Það er því aðeins hin eiginlega bankastarfsemi og verðbréfamiðlun eða fyllilega sambærileg starfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti, þ.e. ávöxtun fjár viðskipta-manna eða milliganga um kaup eða sölu verðbréfa og sérfræðiráðgjöf á þessum sviðum. Önnur þjónusta, s.s. „rekstur“ lífeyrissjóða með tilheyrandi bókhaldsvinnu o.þ.u.l. er ekki undanþegin virðisaukaskatti skv. framansögðu, heldur telst sú þjónusta til aðfanga skv. 4. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.