Dagsetning Tilvísun
20. ágúst 1993 516/93
Þjónusta við erlenda aðila
Vísað er til bréfs yðar, dags. 7. júní 1993 s.l., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort fyrirtæki er selur hollensku rafveitunum verkfræði og ráðgjafarþjónustu vegna hagkvæmnisathugana á lagningu sæstrengs milli Íslands og Hollands sé ekki undanþegið virðisaukaskatti vegna þeirrar þjónustu.
Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá er ráðgjafarþjónusta og verkfræðiþjónusta m.a. undanþegin skattskyldri veltu þegar þjónustan er seld til aðila sem hvorki hafa búsetu né starfsstöð hér á landi.
Í 1. gr. reglugerðarinnar koma fram skilyrði þess að þjónustan sé undanþegin skattskyldri veltu, en þau eru:
a. Þjónustan er nýtt að öllu leyti erlendis.
b. Kaupandi gæti – ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum nr. 50/1988 – talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. virðisaukaskattslaga.
Það er álit ríkisskattstjóra að starfsemi sú sem hér um ræðir falli undir b-lið 1. gr. reglugerðarinnar og er því þjónustan undanþegin virðisaukaskattsskyldu. Það skilyrði er þó sett til sönnunar því að b-liður 1. mgr. eigi við um kaupanda að kaupandi krefji hann um vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi hans þar sem fram komi hvers konar atvinnurekstur hann hafi með höndum. Vottorð þetta gildir í eitt ár frá útgáfudegi og skal seljandi varðveita það á sama hátt og önnur bókhaldsgögn.
Virðingarfyllst
f.h. ríkisskattstjóra
Grétar Jónasson