Dagsetning                       Tilvísun
23. mars 1995                            677/95

 

Trúfélag – blönduð starfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 17. mars 1995, þar sem óskað er eftir leiðbeiningum ríkisskattstjóra um innskatt vegna tiltekinnar trúarsamkomu.

Í bréfi yðar er eftirfarandi tekið fram:

“Um er að ræða félagasamtökin […] er hafa með rekstur sjónvarpstöðvarinnar […] að gera.

Bókhaldsgögn félagasamtakanna, sem fram voru lögð þann 13. desember 1994 með virðisaukaskattsskýrslu tímabilsins sept.- okt. 1994, samanstanda af tveimur möppum og af þeim má ráða að önnur sé vegna samkomu […] en hin vegna starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar […]. Skv. framkomnum upplýsingum úr bókhaldsgögnum samanstendur tilgreind velta umræddrar virðisaukaskattsskýrslu annars vegar af frjálsum framlögum þeirra er sóttu samkomuna […] og hins vegar af framlagi frá […] samtökunum. Á skýrslu félagasamtakanna eru þessi samskot og framlag talin til undanþeginnar veltu, en eigi verður séð að ákvæði 12. gr. virðisaukaskattslaganna eigi hér við. Skattstjóri fær yfir höfuð ekki séð að þessi þáttur í starfsemi félagasamtakanna teljist skattskyldur þáttur í starfsemi þeirra.

Ekki var um innsenda hreyfingarlista með bókhaldi að ræða en úr því hefur verið bætt ásamt skýringarbréfi, dags. 30. janúar 1995, er segir: “Í samræmi við fyrirspurn yðar gagnvart innskatti vegna samkomu […], viljum við taka fram að umrædd samkoma var tekinn á myndband til sýningar hjá sjónvarpsstöð […], jafnframt er í ráði að markaðssetja dagskrána til annarra trúarlegra sjónvarpsstöðva erlendis. Með framanskráð í huga teljum við að okkur beri innskattur af virðisaukaskattsskyldum kostnaði við ofangreinda samkomu”.

….”.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að eigi hvílir skylda á trúfélögum að innheimta virðisaukaskatt af framlögum og öðrum gjöldum til trúarstarfsemi sinnar, enda sé ekki um að ræða greiðslur fyrir vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Starfsemi útvarps- og sjónvarps-stöðva er a.á.m. skattskyld eftir almennum ákvæðum virðisaukaskattslaga og ber þeim að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af sölu auglýsinga o.fl., sbr. 1. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaga, en afnotagjöld bera 14% virðisaukaskatt, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Gjaldandi virðist samkvæmt framanrituðu vera með blandaða starfsemi. Athygli er vakin á því að skv. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, er einungis unnt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson