Dagsetning Tilvísun
16. nóv. 1990 170/90
Um virðisaukaskatt af fréttabréfi sendinefndar framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins.
Með bréfi, dags. 22. október 1990, framsendið þér til ríkisskattstjóra fyrirspurn, dags. 11 október 1990, frá sendinefnd framkvæmdastjórnar E. Fram kemur í fyrirspurninni að sendinefndin hyggist gefa út hér á landi fréttabréf um málefni E og er spurt í því sambandi hvernig virðisaukaskatti vegna slíkrar útgáfu sé háttað.
Ekki kemur fram í fyrirspurninni hvernig að útgáfu myndi vera staðið eða hvort ritinu yrði dreift ókeypis eða selt. Mismunandi reglur gilda um meðferð virðisaukaskatts, hvort útgáfa telst vera í atvinnuskyni eða ekki. Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni, er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Ef samtals auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en prentkostnaður og annar kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar, þá telst útgáfan ekki vera rekin í atvinnuskyni. Ef útgáfan telst vera í atvinnuskyni er hún skráningarskyld starfsemi, nema ef samtals tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þar á meðal tekjur af auglýsingum og sölu ritsins eru lægri en 155.800 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu l. janúar 1990).
a) Skráningarskyld útgáfa:
Útgefanda ber að innheimta virðisaukaskatt af auglýsingatekjum og öðrum tekjum sem teljast til skattskyldrar veltu skv. almennum reglum laganna. Tekjur vegna sölu eru undanþegnar skattskyldri veltu. Virðisaukaskattur af aðföngum til útgáfunnar kemur til frádráttar sem innskattur eftir almennum reglum.
b) Útgáfa sem undanþegin er skráningarskyldu:
Sé útgáfan undanþegin skráningarskyldu innheimtir útgefandi hvorki virðisaukaskatt af auglýsingatekjum né sölutekjum af ritinu. Hann hefur engan innskattsfrádrátt vegna útgáfunnar.
Virðisaukaskattshlutfall er 24,5%.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.