Dagsetning                       Tilvísun
14. jan. 1991                             205/91

 

Undanþága frá skráningu heildarandvirðis lyfjasölu í sjóðvél.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 19. júní sl., þar sem þess er óskað að ríkisskattstjóri veiti apótekum undanþágu frá skyldu til að skrá í sjóðvél við sölu þann hluta heildarandvirðis lyfja og hjálpartækja sem greiddur er af Tryggingastofnun ríkisins.

Í bréfinu er sú ástæða tilgreind fyrir beiðni um undanþágu að viðskiptavinur greiði aðeins hluta af verði þeirra lyfja sem hann fær. Því beri ekki saman niðurstöðu kassakvittunar og þeirrar fjárhæðar sem viðskiptavinur reiðir af hendi ef heildarverð er skráð í sjóðvél. Síðan segir:

„Þar sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir allan mismuninn ætti að vera nægilegt eftirlit fólgið í því að gefnir séu út fyrirfram tölusettir reikningar til Tryggingastofnunar ríkisins. Hluti T.R. í lyfjaverði er skráður í sérstakt tölvukerfi, lyfseðlakerfi, sem allar lyfjaverslanir landsins hafa til umráða. Skráning þessi á sér stað í lok hvers dags. Með hverjum reikningi til T.R. fylgja lyfseðlar ásamt listum yfir hluta T.R. í verði þeirra lyfja sem afhent hafa verið og er það sundurliðað á lyfseðla og afhendingardaga.“

Jafnframt er sótt um undanþágu vegna annarra lánsviðskipta en við Tryggingastofnun ríkisins og segir um það atriði í bréfinu að verði undanþága veitt vegna þeirra viðskipta sé einfaldast að öll lánsviðskipti yrðu meðhöndluð á sama hátt.

Með vísan til þeirra sérstöku atvika sem gerð er grein fyrir í bréfi yðar fellst ríkisskattstjóri á að sá hluti heildarandvirðis seldra lyfja og hjálpartækja sem greiddur er af Tryggingastofnun ríkisins verði færður á fyrirfram tölusetta sölureikninga í stað skráningar í sjóðvél.

Ekki er hægt að fallast á að öll önnur lánsviðskipti verði eingöngu skráð með útgáfu sölureikninga.

Tekið skal fram að bifreið sem skráð er fyrir átta farþega, auk ökumanns, telst fólksbifreið í þessu sambandi þótt leyfð heildarþyngd hennar sé yfir 3500 kg.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.