Dagsetning                       Tilvísun
31. janúar 1992                            377/92

 

Uppgjör virðisaukaskatts.

Með bréfi yðar, dags. 28. maí 1991, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort heimilt sé að miða skil á virðisaukaskatti við útskriftarmánuð reikninga í stað þess að miða við þann mánuð þegar verk er unnið. Í erindinu er gerð grein fyrir því að umbjóðandi yðar (byggingarfyrirtæki) hafi fært tekjur af verkum samkvæmt sölureikningum sem dagsettir eru í janúar 1991 með tekjum 1990 þar sem unnið hafði verið við þau í desember það ár.

Til svars erindinu skal tekið fram að skv. l. mgr. 20. gr. virðisaukaskattslaga ber að gefa út sölureikning þegar vara eða skattskyld þjónusta hefur verið afhent. Uppgjör virðisaukaskatts miðast einnig við afhendingu, sbr. l. mgr. 13. gr. laganna. Til hliðsjónar vísast til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 415/1989 sem varðar sérstakan söluskatt (birtur í nýjasta úrskurðasafni nefndarinnar).

Framangreind ákvæði virðisaukaskattslaga eru í raun sama efnis og tekjutímabilsregla 2. mgr. 60. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisskattstjóri telur því að ekki fái staðist að telja sölu fram til virðisaukaskatts á næsta tímabili eftir að salan hefur verið færð til tekna.

Eins og fram kemur í 2. mgr. 13. gr. virðisaukaskattslaga má miða skil á virðisaukaskatti við útskriftarmánuð sölureikninga, enda sé reikningur gefinn út fyrir eða samtímis afhendingu. Það hvenær þjónusta telst afhent fer síðan nánar eftir eðli þjónustunnar og þeim samningum sem um hana hafa verið gerðir eða venjum sem um hana gilda.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.