Dagsetning Tilvísun
3. júní 1993 477/93
Útflutningur hrossa
Vísað er til bréfs yðar, dags. 23. febrúar 1993, þar sem óskað er skýringa ríkisskattstjóra á því hvaða reglur gildi varðandi meðferð virðisaukaskatts við útflutning hrossa. Í bréfi yðar er sérstaklega spurt um hvenær sala á hrossi telst fara fram og hvort seljandi þurfi sjálfur að flytja út sitt eigið hross á sér tollskýrslu.
Til svars erindinu skal tekið fram að skv. 1. tl. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, telst vara sem seld er úr landi ekki til skattskyldrar veltu. Í skilyrðinu um að vara sé „seld úr landi“ felst að seljandi sendi vöru til útlanda annað hvort með eigin flutningatæki eða á vegum flutningsaðila. Ákvæðið tekur ekki til vöru sem er afhent hérlendis þótt kaupandi flytji hana síðar úr landi.
Að áliti ríkisskattstjóra telst hross til vöru í skilningi 1. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Aðili sem selur hross til útflutnings getur þannig talið söluna til undanþeginnar veltu ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt varðandi sönnun fyrir sölu og útflutningi.
Ef hross er selt til útlanda í gegnum umboðs- eða umsýslusölu, þá reiknast virðisaukaskattur af heildarandvirði hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. virðisaukaskattslaga. Með umboðs- og umsýslusölu er í þessu sambandi átt við það þegar aðili (umsýslumaður) selur vöru í eigin nafni, en fyrir reikning annars (umsýsluveitanda).
Ef ákveðnum skilyrðum er fullnægt getur aðili haft milligöngu um útflutningsviðskipti án þess að virðisaukaskattur reiknist af heildarverði. Þessi tegund af milligöngu kallast sölumiðlun til útflutnings.
Með sölumiðlun til útflutnings er átt við að miðlari komi fram við söluna í nafni umbjóðanda síns, fyrir hans reikning og sjái um afhendingu vöru til útflutnings – annað hvort með eigin flutningatæki eða á vegum flutningsaðila.
Eftirfarandi skilyrðum þarf að vera fullnægt til þess að þjónusta miðlara um viðskiptin teljist vera sölumiðlun til útflutnings:
- Sala á hrossi skal fara fram í nafni eiganda á grundvelli skriflegs samnings milli eiganda og miðlara og eftir atvikum milli miðlara og kaupanda. Samningur aðila er bókhaldsgagn miðlara. Í skriflegum samningi miðlara og umbjóðanda skal kveðið á um að eigandi hafi fullan ráðstöfunarrétt og eignarrétt á hrossi gagnvart miðlara þar til hrossið hefur verið selt kaupanda og afhent til útflutnings.
- Miðlara er óheimilt að tilgreina eða gefa til kynna á sölureikningi, í kaupsamningi, afsali eða öðrum söluskjölum að hann sé seljandi. Kaupandi skal fá söluskjal í hendur þar sem ótvírætt komi fram að kaupin séu gerð við eiganda hrossins. Tilgreina skal nöfn, heimilisföng og kennitölur miðlara, kaupanda og seljanda í söluskjölum.
- Miðlara er óheimilt að ábyrgjast eiginleika hrossins gagnvart kaupanda. Því verður að koma greinilega fram í söluskjölum, sem kaupandi fær í hendur, að miðlari beri ekki ábyrgð á því ef umsömdum skilyrðum er ekki fullnægt.
- Þóknun miðlara (sölulaun) fyrir sölumiðlun skal ákveðin eftir almennum hætti; annaðhvort sem ákveðinn hundraðshluti af söluverði eða umsamin föst upphæð.
Til þess að heimilt sé að halda viðskiptum utan skattskyldrar veltu, skv. 1. tl. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga, þá verður að vera hægt að sanna sölu úr landi, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Seljandi verður þannig að hafa í bókhaldi sínu eða bókhaldsgögnum eftirtalin skjöl:
- Afrit eigin sölureiknings vegna hinnar útfluttu vöru.
- Afrit útflutningsskýrslu í því formi sem ákveðið er skv. tollalögum, áritaða af toll-yfirvöldum um útflutning, svo og kvittun flutningsaðila fyrir móttöku sendanda til flutnings úr landi.
Þegar miðlari annast milligöngu um útflutning á hrossum frá fleiri en einum seljanda til eins kaupanda, þá er að áliti ríkisskattstjóra ekki nauðsynlegt að miðlari fylli út sér útflutningsskýrslu fyrir hvert hross enda komi skýrt fram á fylgigögnum með útflutningsskýrslu hver sé seljandi og kaupandi hvers einstaks hross, verðmæti þess og að seljandi hafi í bókhaldi sínu afrit af viðkomandi fylgigögnum. Jafnframt skulu gögn þessi varðveitt í bókhaldi miðlara.
Miðlari skal greiða virðisaukaskatt af þeirri söluþóknun sem hann áskilur sér fyrir milligönguna og gefa út reikning fyrir þeirri upphæð til umbjóðanda síns. Miðlara ber því að innheimta virðisaukaskatt af sinni þjónustu, þ.e. þeirri þjónustu sem hann annast vegna flutnings, útvegun vottorða, frágangs útflutningsskjala o.fl.
Innlendir rekstraraðilar, sem í atvinnuskyni kaupa hross hér á landi og selja til útflutnings, geta talið til innskatts þann virðisaukaskatt, sem þeir greiða vegna kaupa á hrossum. Jafnframt geta þeir talið útflutning sinn á hrossum til undanþeginnar veltu að uppfylltum áður nefndum skilyrðum.
Að lokum skal þess getið, að ef erlent fyrirtæki kaupir hross og fær það afhent hérlendis, þá getur fyrirtækið fengið endurgreiddan þann virðisaukaskatt sem það greiðir hér á landi vegna kaupa á hrossi sem það flytur sjálft úr landi, skv. nánari skilyrðum í reglugerð nr. 247/1991, um endurgreiðslu virðisaukaskatts til erlendra fyrirtækja.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.