Dagsetning                       Tilvísun
18. nóvember 1993                            577/93

 

Útgáfustarfsemi

Með bréfi yðar, dags. 1. nóvember 1993, er óskað álits ríkisskattstjóra á því hvort greiða beri virðisaukaskatt af hluta borgarsjóðs af söluandvirði götu- og ferðakorts af Reykjavík og nágrannabyggðalögum. Kortið mun hafa að geyma ýmis atriði m.a. um leiðir, viðkomustaði og leiðarnúmer strætisvagna, bílageymsluhús og bílastæði, sjúkrahús, skóla, kirkjur, söfn, helstu gönguleiðir ofl. Kortið mun verða framleitt í tveimur mismunandi útgáfum. Önnur er aðallega ætluð til nota á stofnunum og í fyrirtækjum sem veggkort, en hin ferðamönnum og verður sú útgáfa samanbrotin og límd í lítið kver í vasabókarbroti.

Til svars erindinu er þess að geta að tvö skilyrði verða að vera uppfyllt til þess að um virðisaukaskattsskyldu vegna útgáfustarfsemi hjá opinberum aðila sé að ræða, þ.e. að starfsemin sé í atvinnuskyni og að um samkeppni við aðra aðila sé að ræða. Atriði þessi eru mjög samofin og við mat á því hvort vörusala teljist sambærileg við starfsemi atvinnufyrirtækja og þar af leiðandi skráningarskyld er aðallega miðað við hvort tilgangur starfseminnar sé að skila hagnaði af rekstri. Verður hér vikið að báðum atriðunum.

  1. Atvinnuskyn. Ríkisskattstjóri lítur svo á að sala opinberra aðila á ritum og kortum sem þeir gefa út sé aðeins skráningarskyld ef þessar vörur eru seldar með hagnaði. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af þessari starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar. Í fyrirspurnarbréfinu er talið að ekki sé hægt að búast við hagnaði af útgáfustarfseminni á næstu árum.
  1. Samkeppnissjónarmið. Opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, og stofnanir og fyrirtæki þeirra, eru skráningarskyldir að því leyti sem þeir selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Í fyrirspurnarbréfinu kemur fram að til séu nokkur kort af einstökum sveitarfélögum, sem þau hafa í flestum tilfellum fjármagnað sjálf en ekki sé vitað um sambærilegt heildarkort frá síðari árum. Þá má og nefna að ýmis fyrirtæki hafa gefið út leiðbeiningarkort þar sem götur og ýmsar handhægar upplýsingar koma fyrir. Svo virðist því sem þarna sé hægt að lýta svo á að um samkeppni sé að ræða.

Ríkisskattstjóri telur samkvæmt framansögðu að ef útgáfan er í atvinnuskyni og í samkeppni við aðra þá beri að innheimta 24,5% virðisaukaskatt af sölunni skv. 1. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaganna. Sé á hinn bóginn hvorugu skilyrðinu fullnægt eða einvörðungu öðru þá beri ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölu kortanna.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson