Dagsetning Tilvísun
25. nóvember 1996 762/96
Útleiga á listaverkum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 30. október sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af útleigu á listaverkum í eigu R.
Í bréfi yðar kemur fram að borgarráð hefur samþykkt reglur um útleigu listaverka í eigu borgarinnar. Jafnframt kemur fram að ætlunin er að leigja annars vegar til stofnana og fyrirtækja borgarinnar og hins vegar til annarra óskyldra aðila.
Til svars bréfinu skal tekið fram að ekkert undanþáguákvæði laganna tekur til útleigu á listaverkum. Þannig að útleiga á listaverkum er virðisaukaskattsskyld starfsemi, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Ekki verður séð að um útleigu sé að ræða þegar einstakar borgarstofnanir greiða gjald fyrir afnot af listaverkum í eigu R. Í þeim tilvikum eru leigutaki og leigusali sami aðili og því frekar um að ræða kostnaðardreifingu á stofnanir borgarinnar vegna umsýslu með verkin.
Sé leigt til annarra aðila ber hins vegar að innheimta virðisaukaskatt af heildarleigugjaldinu. Tekið skal sérstaklega fram að ef leigutaki er krafinn um greiðslu vegna tryggingar verkanna auk leigugjalds þá telst sú vátrygging jafnframt til skattverðs, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1988.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.