Dagsetning Tilvísun
1. nóv. 1993 564/93
Útsköttun virðisaukaskattsbifreiðar.
Vísað er til bréfs yðar, dags.18. október 1993, þar sem að spurt er hvort tvær notaðar bifreiðar er uppfylltu lagaskilyrði þess að vera virðisaukaskattsbifreiðar en voru ekki skráðar sem slíkar hefði átt að selja með virðisaukaskatti. Einnig er spurt hvort selja beri bifreiðarnar með virðisaukaskatti nú þar sem þær hafa báðar verið notaðar í virðisaukaskattsskydum rekstri og virðisaukaskattur notaður af rekstri þeirra. Nefnt er að þér hafið nú selt annan bílinn og ekki innheimt virðisaukaskatt af sölu hans og til standi að selja hina bifreiðina.
Til svars erindi yðar þá má geta þess að bifreið sem ekki hefur fengist innskattur af við öflun og hefur ekki notið innskattsfrádráttar vegna rekstrar, þarf ekki að útskatta við sölu. Sé á hinn bóginn um bifreið að ræða sem hefur notið innskattsfrádráttar að fullu vegna rekstrar, þarf að útskatta bifreiðina hvort sem innskattsfrádráttur fékkst vegna öflunar hennar eða ekki.
Af þessum sökum ber yður að skila útskatti vegna bifreiðar þeirrar er þér hafið þegar selt og þeirrar er til stendur að selja. Skattverðið er miðað við heildarsöluverð bílsins og skattskyld velta er 80,32% af verði bifreiðarirnnar og virðisaukaskatturinn þá 19,68%.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Grétar Jónasson.
Hjálagt: Leiðbeiningar um meðferð virðisaukaskatts af bifreiðum.