Dagsetning                       Tilvísun
7. maí 1996                            735/96

 

Vændi – virðisaukaskattur

Vísað er til bréfs yðar, dags. 14. mars 1996, þar sem lagðar eru fram ýmsar spurningar varðandi vændi.

Í bréfi yðar segir að þér hafið unnið í hópstarfi verkefni í lögfræði þar sem í ljós kom að löglegt væri að stunda vændi hér á landi, ef sá sem það stundar hefur ekki aðalframfærslu af því og selji eingöngu sinn eigin líkama. Ekki sé leyfilegt að vera í forsvari fyrir aðra sem stunda slíka iðju.

Í framhaldi af þessu berið þér fram eftirfarandi sex spurningar:

  1. Er heimil undanþága frá notkun sjóðvéla?
  2. Hvernig sölureikninga skal sá gefa út sem stundar vændi?
  3. Hvaða virðisaukaskattsþrepi tilheyrir vændi?
  4. Tilheyrir tryggingagjald af starfseminni almennum gjaldflokki eða sérstökum gjaldflokki?
  5. Er einhver starfsemi sem getur nýtt sér innskatt af vændiskaupum til frádráttar á uppgjöri VSK?
  6. Er innskattur heimill af aðföngum til starfseminnar?

Af spurningum yðar má ráða að þér eruð viss um að vændi í atvinnuskyni sé löglegt, um það atriði tekur ríkisskattstjóri ekki efnislega afstöðu enda ekki á hans verksviði að kveða á um slíkt. Að því gefnu að um löglega atvinnustarfsemi sé að ræða er hún virðisaukaskattsskyld enda á ekkert undanþáguákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, við um starfsemina sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, mega þjónustusalar sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda og taldir eru upp í fylgiskjali við reglugerðina ráða því hvort þeir nota sjóðvél eða reikninga. Þjónustan sem hér um ræðir er ekki talin upp í fylgiskjalinu og ber því þeim sem þá þjónustu stunda að gefa út reikninga. Í 3.-5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um útgáfu sölureikninga og vísast til þeirra greina um það efni.

Í 14. gr. virðisaukaskattslaga eru taldar upp þær vörur og sú þjónusta sem bera 14% virðisaukaskatt. Umrædd þjónusta er ekki þar á meðal og verður því að líta svo á að innheimta beri 24,5%. Tryggingagjald af starfseminni tilheyrir almennum flokki. Í sérstökum gjaldflokki eru fiskveiðar, iðnaður, landbúnaður kvikmyndaiðnaður, gisting, veitingarekstur og útleiga bifreiða, sbr. 2. mgr. reglugerðar nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Um þá spurningu yðar hvort einhver starfsemi geti nýtt sér innskatt af kaupum á umræddri þjónustu til frádráttar á uppgjöri virðisaukaskatts er því til að svara að slíkt myndi flokkast undir risnu eða hlunnindi sem ekki er heimilt að telja til innskatts sbr. 3. og 5. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 3. og 5. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Um innskattsfrádrátt af aðföngum til starfseminnar gilda sömu reglur og í annarri virðisaukaskattsskyldri starfsemi þ.e. ef um aðföng sem eingöngu eru notuð til starfseminnar er að ræða þá fæst fullur innskattsfrádráttur. Ef aftur á móti um er að ræða aðföng skattaðila sem bæði varða sölu hans á skattskyldri þjónustu og til einkanota eða annarra nota sem ekki varða rekstur hans, þá má telja virðisaukaskatt af slíkum innkaupum til innskatts að því leyti sem þau teljast varða virðisaukaskattsskyldan rekstur sbr. 6. gr. reglugerðar um innskatt.

Með bréfi þessu sendist yður til frekari upplýsinga reglugerð nr. 192/1993, um innskatt og reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir

 

Hjálagt: Reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskatts- skyldra aðila og reglugerð nr. 192/1993, um innskatt.