Dagsetning                       Tilvísun
18. júní 1993                        484/1993

 

Varðandi einkanot virðisaukaskattsbifreiða.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. júní 1993, þar sem óskað er eftir upplýsingum um meðferð virðisaukaskattsbifreiða.

Í bréfi yðar kemur fram, að starfsmenn félagsins, sem hafa bifreiðar til afnota vegna starfa sinna, þurfi oft að sinna útköllum til vinnu utan dagvinnutíma og sé fyrirtækinu hagstætt að þessar bifreiðar séu geymdar sem næst heimili þeirra, enda sé útilokað að geyma þær við vinnustaði starfsmanna í miðbænum eða á O.

Til svars bréfs yðar skal tekið fram að skv. 9. gr. innskattsreglugerðar nr. 192/1993 er einungis heimilt að nota virðisaukabifreiðar í þeirri starfsemi eiganda sem er virðisaukaskattsskyld. Af þessu leiðir að hvers konar einkanot bifreiðar telst vera misnotkun hennar og leiðir slík misnotkun bifreiðar á rauðhvítum skráningarmerkjum að öllu jöfnu til þess að innskattur af öflun (þ.e. vegna kaupa) bifreiðar verður bakfærður (leiðréttur).

Til einkanota, sbr. 9. gr. innskattsreglugerðar, telst m.a. akstur á milli heimilis og vinnustaðar. Reglan er því skýr og afdráttarlaus, þannig að akstur á milli heimilis og vinnustaðar verður ávallt talinn til einkanota jafnvel þótt bifreið sé einungis geymd við heimahús eiganda eða starfsmanns. Þrátt fyrir framangreint er heimilt að geyma bifreið við heimahús viðkomandi eiganda ef hann hefur ekki fasta starfstöð annars staðar.

Enda þótt notendur bifreiða á rauðhvítum skráningarmerkjum geti sýnt fram á að þeir hafi verið á bakvakt þegar bifreið stóð við heimahús er slík ástæða ekki fullnægjandi og myndi það valda því að allur innskattur af öflun bifreiðar yrði bakfærður.

Varðandi einstaka álitamál sem tiltekin eru í bréfi yðar skal eftirfarandi tekið fram varðandi akstur starfsmanna að loknum vinnudegi:

a) Bifreiðin U er notuð af yfirmanni viðhaldsdeildar félagsins. Hann þarf ætíð að sinna útköllum ef um bilanir, skemmdir eða rúðubrot er að ræða á fasteignum félagsins og er því alltaf á bakvakt utan venjulegs vinnutíma. Spurt er hvort starfsmaður megi geyma bifreiðina við heimili sitt utan venjulegs vinnutíma eða á lóð félagsins við H.

Starfsmanni þessum er eigi heimilt að aka umræddri bifreið heim til sín að loknum vinnudegi, eins og skýrlega er tekið fram hér að framan. Heimilt er að geyma bifreiðar fyrirtækja á lóðum í þeirra eigu.

b) Bifreiðin I er notuð við útkeyrslu frá brauðgerð X. Spurt er hvort starfsmaður megi aka bifreiðinni að aflokinni vinnu til geymslu á bílastæði við Slökkvistöð Akureyrar, þar sem útilokað sé að geyma bifreiðina við vinnustað um nætur og um helgar.

Heimilt er að geyma bifreiðar á öðrum stöðum en við vinnustað, svo framarlega sem ekki sé um dulin einkanot að ræða.

Hafi fyrirtæki starfstöð á fleiri en einum stað, þá er hægt að geyma bifreið við einhverja af starfstöðvum fyrirtækis. En starfsmanni er ekki heimilt að leggja bifreið fyrirtækis á bílastæði nálægt heimili sínu ef engin tengsl eru á milli fyrirtækis og eiganda bílastæðis, þannig að í raun sé um dulin einkanot að ræða. Hugsanlegt er að bifreiðar séu geymdar yfir nótt á sérstökum þjónustustæðum virðisaukabifreiða.

c) Bifreiðarnar Y og T eru notaðar við útkeyrslu á vörum og pósti til allra starfsdeilda félagsins á A. Spurt er hvort heimilt sé að geyma bifreiðar utan vinnutíma á einhverjum þeim lóðum, þar sem X hefur starfsemi.

Eins og áður segir, þá er fyrirtæki heimilt að geyma bifreið sína yfir nótt við einhverja af starfstöðvum sínum.

d) Bifreiðarnar J og R eru notaðar af starfsmönnum M. X vegna viðhalds og eftirlits á mjaltavélakerfum og eru þær geymdar á lóð M þegar starfsmenn eru ekki í vinnu. Starfsmenn sinna bakvöktum og er þá hringt á heimili þeirra þegar um útkall er að ræða. Spurt er hvort hægt sé að líta á heimili þeirra sem starfstöð þegar um bakvaktir er að ræða.

Spurningu þessari er svarað neitandi, sbr. það sem áður segir um bakvaktir.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson.