Dagsetning                       Tilvísun
10. desember 1996                            767/96

 

Hjálagt sendast yður, hr. skattstjóri, verklagsreglur vegna loka á ársskilamáta, þ.e. um meðferð ársskilaaðila sem ná veltumarki o.fl.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Ingibjörg Ingvadóttir

 

Verklagsreglur um lok á ársskilamáta, þ.e. um meðferð ársskilaaðila sem ná veltumarki o.fl.

  1. Breyting á skilamáta

Þegar ársskilaðili nær veltumarki skv. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti, þarf skattstjóri að gæta þess að breyta skilamáta hans úr ársskilum (00) í almennan skilamáta (10), en upplýsingar um þetta berast skattstjórum fyrst og fremst frá aðila sjálfum, þ.e. í formi leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts, RSK 10.26.

Dagsetningin sem tölvukerfið býður upp á í þessu sambandi er 1. janúar á yfirstandandi ári. Raunveruleg breyting miðast samt sem áður við það almenna, þ.e. tveggja mánaða, uppgjörstímabil sem næst er á eftir tímabilinu sem veltumark náðist á. Tímabilið sem breyttur skilamáti miðast við verður hér á eftir nefnt breytingartímabilið.

Fari breyting á skilamáta fram eftir að áritanakeyrsla vegna breytingartímabilsins á sér stað[1] er rétt að skattstjóri minni aðila á breyttan skilamáta. Þetta mætti gerast með símtali. Meðfylgjandi er þó tillaga að skriflegri tilkynningu, kjósi skattstjóri heldur þá leið.

Fái skattstjóri upplýsingar um að veltumark hafi náðst eftir öðrum leiðum en á grundvelli skýrslugjafar ársskilaaðila sjálfs þarf skattstjóri að byggja málsmeðferð á fyrirspurnar/fyrir- hugunarferli. Sama gildir, eftir nánari atvikum, hyggist skattstjóri breyta fyrirliggjandi skýrslu aðila.

  1. Afgreiðsla og skráning leiðréttingarskýrslna

Fari skattskyld velta ársskilaaðila umfram þau mörk sem greinir í 1. mgr. 3. gr. tilvitnaðrar reglugerðar skal hann á næsta gjalddaga almennra uppgjörstímabila gera upp mismun þess útskatts og innskatts sem fallið hefur á sölu og kaup hans á almanaksárinu, sbr. 3. mgr. 3. gr. Sé um slíkt uppgjör að ræða skal gerð grein fyrir því í leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts, sbr. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar.

Þegar ársskilaaðili nær veltumarki þarf hann því að standa skil á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts á gjalddaga þess almenna uppgjörstímabils sem veltumarkinu er náð á. Í leiðréttingarskýrslunni skal sundurliða virðisaukaskatt eftir liðnum almennum uppgjörstímabilum ársins. Það athugist að gera þarf grein fyrir öllum virðisaukaskatti tímabilsins sem veltumarkið náðist á.

Skilamáti næsta tímabils eftir að veltumarki er náð skal vera almennur og vegna þess tímabils, þ.e. breytingartímabilsins, ber aðila því að skila venjulegri tveggja mánaða skýrslu á gjalddaga þess tímabils.

Hafi ársskilamaður gert fullnægjandi skil skv. 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar kemur ekki til álagsbeitingar, sbr. 2. mgr. 15. gr., en hafi hann ekki gert réttileg skil kemur til álagsbeitingar skv. almennum reglum. Álagsbeiting miðast eingöngu við gjalddaga tímabilsins sem veltumark náðist á en ekki gjalddaga allra þeirra tímabila sem leiðrétting tekur til.

Til könnunar á því hvort aðili hefur gert fullnægjandi skil skoðar skattstjóri m.a. sundurliðun fjárhæða á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts og gengur úr skugga um það á hvaða almenna uppgjörstímabili veltumarki var náð. Skattstjóri kallar eftir atvikum inn bókhald til nánari könnunar. Það athugist að greiðsla aðila skal ná til allra tímabila sem leiðréttingarskýrslan á að ná til.

Skattstjóri skal skrá virðisaukaskatt þess tíma sem leiðréttingarskýrslan á að taka til á eitt uppgjörstímabil, þ.e. uppgjörstímabilið sem veltumarkinu var raunverulega náð á. Með því móti er tryggt, án frekari aðgerða af hálfu skattstjóra, að útreikningur álags (VSK) og dráttarvaxta (TBI), verði réttur sbr. uppbyggingu hugbúnaðar í álagningarkerfi virðisaukaskatts.

Fjárhæðasundurliðanir eftir almennum uppgjörstímabilum verða eftir sem áður fyrirliggjandi í leiðréttingarskýrslu eða öðrum gögnum sem skráning byggðist á og rekjanlegt í tölvukerfi að um skráningu vegna breytingar á skilamáta sé að ræða, sbr. t.d. mynd CI.

Þar sem breyting á skilamáta kallar á skráningu virðisaukaskatts allt aftur til áramóta, sbr. 1. kafla að framan, þarf að gæta þess að núllskrá eldri uppgjörstímabil ársins.

  1. Bunkar, gögn, geymsla, frágangur

Við afgreiðslu leiðréttingarskýrslna virðisaukaskatts vegna ársskilaaðila þarf að búa til bunka, eins og kallað er, enda um frumskráningu að ræða.

Vegna þeirra skattstjóra sem ekki geyma á einum stað öll þau gögn sem ákvarðanir virðisaukaskatts sama aðila byggjast á, þ.m.t. virðisaukaskattsskýrslur og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts, er skattstjórum bent á, til hagræðis, að útfylla meðfylgjandi form og geyma á meðal virðisaukaskattsskýrslna RSK 10.09/10.10, en formið vísar til uppgjörs vegna loka á ársskilamáta. Það ætti því að vera auðvelt að finna síðar leiðréttingarskýrsluna, sem þá væri annað hvort geymd með öðrum leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts eða í sérröð, eða þau önnur gögn sem ákvörðun virðisaukaskatts vegna loka á ársskilamáta byggðist á, sem þá væru t.d. geymd í skattframtali aðila eða í sérstakri málaröð.

Tíundi aðili einnig á leiðréttingarskýrslunni virðisaukaskatt næsta uppgjörstímabils á eftir því tímabili sem veltumarki náðist á, þ.e. virðisaukaskatt breytingartímabilsins, er rétt að skattstjóri flytji fjárhæðir þess tímabils yfir á venjulega tveggja mánaða skýrslu, a.m.k. ef virðisaukaskattsskýrslur og leiðréttingarskýrslur virðisaukaskatts eru ekki geymdar á sama stað.

Við afgreiðslu leiðréttingarskýrslna vegna ársskilaðila sem ná veltumarki er rétt að starfsmaður sem tekur ákvörðun um afgreiðslu auðkenni skýrsluna með því að rita á hana „Út úr ársskilum“, auk athugasemda sinna um afgreiðsluna, dagsetningar og fangamarks.

Hjálagt fylgir sýnishorn af hugsanlegum gagnafrágangi.

  1. Reglugerð nr. 588/1996, um breyting á reglugerð nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti

Með reglugerð nr. 588/1996 voru gerðar nokkrar breytingar á reglugerð nr. 667/1995 og vísast í því efni til bréfs ríkisskattstjóra frá 26. nóvember s.l. (118/96 (763/96)). Þessi reglugerð tekur gildi 1. janúar n.k.

Ákvæðið um ársskilaaðila sem ná veltumarki verður í 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 sbr. reglugerð nr. 588/1996, í stað 3. mgr. 3. gr. áður. Framangreindar verklagsreglur um meðferð ársskilaaðila sem ná veltumarki gilda eftir sem áður, þ.e. bæði um þá sem ná veltumarki fyrir áramót sbr. 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 og þá sem ná veltumarki eftir áramót sbr. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 sbr. reglugerð nr. 588/1996.

Í þessu sambandi er rétt að vekja athygli á því að skilamáti nytjaskógræktaraðila verður ársskilamáti ef tekjur þeirra af starfseminni eru að jafnaði lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti burtséð frá því hvort þessir aðilar hafa verið undir veltumarki á undanfarandi almanaksári eða ekki, skv. 2. ml. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 515/1996, um skráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, sbr. 2. ml. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 sbr. reglugerð nr. 588/1996, en reglugerð 515/1996 tekur gildi 1. janúar n.k. eins og reglugerð nr. 588/1996. Við mat á því hvort virðisauki nytjaskógræktaraðila er neikvæður að jafnaði í þessu sambandi, þ.e. þannig að skilamáti aðila verði ársskilamáti, miðar ríkisskattstjóri við að virðisauki aðila sé neikvæður (útskattur lægri en innskattur) á undanfarandi almanaksári.

Nytjaskógræktaraðilar með ársskilamáta fara út úr ársskilum skv. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 sbr. reglugerð nr. 588/1996 að teknu tilliti til 2. ml. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 515/1996, þ.e. þegar hvoru tveggja er fyrir hendi; veltumarki er náð og virðisauki er jákvæður að jafnaði. Við mat á því hvort virðisauki nytjaskógræktaraðila er jákvæður að jafnaði í þessu sambandi miðar ríkisskattstjóri við að virðisauki aðila sé jákvæður (útskattur hærri en innskattur) á undanfarandi 12 mánaða tímabili. Framangreindar verklagsreglur gilda eftir því sem við getur átt í þessu sambandi.

Þannig þyrfti t.d. nytjaskógræktaraðili í ársskilum sem næði veltumarki í október 1997 jafnframt því sem virðisauki hans reyndist jákvæður á undanfarandi 12 mánaða tímabili, þ.m.t. október 1997, að standa skil á leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts janúar – október 1997 á gjalddaga uppgjörstímabilsins september-október 1997 og skilamáti hans breyttist í almennan skilamáta frá og með 1. nóvember 1997. Annað dæmi mætti taka um nytjaskógræktaraðila sem næði veltumarki í júní 1997 en virðisauki hans reyndist ekki jákvæður á undanfarandi 12 mánaða tímabili fyrr en í ágúst 1997, þ.m.t. ágúst 1997. Þessi aðili þyrfti að standa skil á leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts janúar – ágúst 1997 á gjalddaga uppgjörstímabilsins júlí – ágúst 1997 og skilamáti hans breyttist í almennan skilamáta frá og með 1. september 1997.

Í reglugerð nr. 588/1996 er það nýmæli um aðila sem fara út úr ársskilum að við bætast allir ársskilaaðilar, þ.m.t. nytjaskógræktaraðilar í ársskilum, sem hætta starfsemi, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995 sbr. reglugerð nr. 588/1996. Framangreindar verklagsreglur taka einnig til þeirra aðila, eftir því sem við getur átt.

Að sjálfsögðu er skilamáta þessara aðila þó ekki breytt heldur eru þeir felldir út af skrá yfir virðisaukaskattsskylda aðila á grundvelli gagna þar um, en þau gögn væru yfirleitt tilkynning um lok virðisaukaskattsskyldrar starfsemi skv. 2. ml. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Þannig þyrfti t.d. ársskilaaðili sem hætti starfsemi í apríl 1997 að standa skil á leiðréttingarskýrslu vegna virðisaukaskatts janúar – apríl 1997 á gjalddaga uppgjörstímabilsins mars – apríl 1997, jafnframt því að tilkynna sig til afskráningar af virðisaukaskattsskrá eigi síðar en 8 dögum eftir að starfsemi lauk.

Rétt er að taka fram að greinatilvitnanir í 2. mgr. 6. gr. (um leiðréttingarskýrslur) og 2. mgr. 15. gr. (um álag) reglugerðar um framtal og skil á virðisaukaskatti breytast til samræmis við framangreint, þ.e. í stað tilvísunar til 3. mgr. 3. gr. koma tilvísanir til 4. og 5. mgr. 3. gr.

 

Reykjavík 10. desember 1996

f.h. ríkisskattstjóra

Jón H. Steingrímsson Ingibjörg Ingvadóttir

 

Meðfylgjandi:
-Tillaga að tilkynningu um breyttan skilamáta
-Form til útfyllingar og geymslu á meðal virðisaukaskattsskýrslna (ábending um gögn geymd annars staðar)
-Sýnishorn af hugsanlegum gagnafrágangi

Fyrri bréf ríkisskattstjóra sem varða ársskilamáta:
-Bréf dags. 8. janúar 1996 (Til. 1/96 (8/96))
-Orðsending vegna virðisaukaskatts nr. 1/1996 meðfylgjandi bréfi dags. 23. janúar 1996 (17/96 (Til. 3/96))
-Tilkynningar (til ársskilaaðila) um breyttan skilamáta vegna virðisaukaskatts dags. 15. mars 1996
-Bréf dags. 26. mars 1996 (undirr. af GB)
-Bréf dags. 11. apríl 1996 (52/96 (Til. 12/96))
-Bréf dags. 22. maí 1996 (63/96 (Til. 15/96))
-Bréf dags. 13. nóvember 1996 (759/96)
-Bréf dags. 26. nóvember 1996 (118/96 (763/96))

[1] Áritanakeyrsla vegna virðisaukaskattsskýrslna RSK 10.09 (C-gíróseðla) vegna þeirra sem eru með almennan skilamáta fer í fyrsta lagi fram 10. dag þess mánaðar sem næstur er á undan gjalddaga viðkomandi uppgjörstímabils.