Dagsetning                       Tilvísun
11. desember 1996                            770/96

 

Viðhaldsdeild – virðisaukaskattur

Vísað er til bréfs yðar, dags. 15. október 1996, þar sem spurst er fyrir um skyldu yðar til að innheimta og standa skil á virðisaukaskatti vegna viðhaldsdeildar sem þér hafið í hyggju að koma á fót.

Í bréfi yðar segir:

“ …… hefur verið til umræðu að stofna viðhaldsdeild sem sæi um allt viðhald og viðgerðir á björgunarbátum og björgunargöllum björgunarsveita X. Undanfarin tvö ár hefur X verið að staðla búnað og merkingar björgunarbáta svipað og önnur björgunarfélög í Evrópu hafa gert. Því gæti verið grundvöllur fyrir sérstakri viðhaldsdeild innan félagsins þar sem einn eða tveir starfsmenn væru á launum.”

Í 2. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga segir:

“Fjármálaráðhera getur ákveðið með hliðsjón af samkeppnisaðstæðum að atvinnu-fyrirtæki, félög og stofnanir og aðrir aðilar greiði virðisaukaskatt af skattskyldum vörum og þjónustu þegar vara er framleidd eða þjónusta innt ef hendi til eigin nota.”

Þegar hafa verið gefnar úr þrjár reglugerðir á grundvelli þessa ákvæðis:

  • Reglugerð nr. 563/1989, sbr. reglugerð nr. 143/1991 um virðisaukaskatt af eigin þjónustu og úttekt til eigin nota innan óskattskyldra fyrirtækja og stofnana.
  • Reglugerð nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingastarfsemi.
  • Reglugerð nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila.

Af framansögðu er ljóst að fjármálaráðherra hefur ekki nýtt sér heimild vegna annarra óskattskyldra aðila og því þurfið þér ekki að standa skil á virðisaukaskatti vegna viðhalds og viðgerða á björgunarbúnaði í yðar eigu, þegar þær eru framkvæmdar í eigin viðhaldsdeild.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir