Dagsetning                       Tilvísun
4. júní 1993                            479/93

 

Viðskipti varnarliðsmanns við innlendan aðila

Vísað er í bréf sýslumanns, dags. 24. mars 1993, þar sem ríkisskattstjóra er sent til umsagnar erindi herlögreglustjóra (Provost Marshal) í varnarliðinu. Í erindinu er farið fram á endurgreiðslu á virðisaukaskatti fyrir liðsmann varnarliðsins.

Málavextir eru þeir, að varnarliðsmaður greiddi fyrir viðgerð á bifreið sinni, þann 30. desember 1992, með virðisaukaskatti. Herlögreglustjóri fer nú fram á endurgreiðslu virðisaukaskattsins og til stuðnings kröfunni er vísað í álit lögmanns, gerðu fyrir varnarmálaskrifstofu, sem ályktar, að einstakir varnarliðsmenn eigi ekki að greiða virðisaukaskatt af þjónustu veittri hér á landi.

Ríkisskattstjóri lítur svo á, að 48. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, taki aðeins til varnarliðsins sjálfs, en ekki einstakra varnarliðsmanna eða innlendra aðila sem eru í þjónustu liðsins. Sérstök ástæða hefði verið til að láta koma fram í 48. gr. laganna ef ákvæðinu hefði verið ætlað að taka til annarra en varnarliðsins sjálfs, enda hefði þá verið um að ræða grundvallarbreytingu frá söluskattslögum. Viðurkennt er að skýra ber skattaundanþágur þröngt, þ.e. að slík ákvæði eru ekki látin ná til fleiri tilvika en tvímælalaust felast í þeim.

Í hinni lögfræðilegu greinargerð, sem herlögreglustjóri vísar til, er litið fram hjá því, að í viðbæti með varnarsamningnum, sbr. lög nr. 110/1951, er skýrt greint á milli annars vegar „hervalda Bandaríkjanna“ eða „stjórnvalda Bandaríkjanna“ og hins vegar „manna í liði Bandaríkjanna“.

Þá ber að lokum að geta þess, að um skatta af vöru sem keypt er innanlands er fjallað í síðari málslið 3. tl. 7. gr. viðaukans. Þar er undanþága bundin við þær eignir sem „..stjórnvöld Bandaríkjanna afla á Íslandi..“ Skv. 1. tl. 6. gr. skulu „..menn í liði Bandaríkjanna og skyldulið þeirra.. “ hins vegar sæta „..sömu kjörum og íslenskir þegnar..“ við kaup á vörum og þjónustu innanlands til eigin neyslu.

Umræddur varnarliðsmaður á því ekki rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðgerðar á bifreið sinni.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson.