Dagsetning Tilvísun
25. nóvember 1997 828/97
Vinnuskúrar/vinnubúðir – virðisaukaskattur
Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. september 1997 til skattstjórans í Norðurlandsumdæmi eystra, sem framsent var ríkisskattstjóra þann 10. október 1997, þar sem óskað er úrskurðar á því, hvort vinnuskúrar þeir er þér keyptuð af Vegagerðinni hafi átt að seljast með virðisaukaskatti. Með bréfinu fylgdu ljósrit af útboðsgögnum, tilboðum yðar, afsölum og reikningi frá Ríkiskaupum sem seldu vinnuskúrana f.h. Vegagerðarinnar.
Í bréfi yðar kemur fram að þegar þér höfðuð gert tilboð í skúrana og þeim hafði verið tekið gerðuð þér fyrirspurn til Ríkiskaupa þess efnis, hvort ekki væri um endanlegt verð að ræða og var það staðfest. Því kom það yður á óvart þegar þér fenguð reikninginn að umræddir vinnuskúrar voru seldir án virðisaukaskatts.
Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að skv. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, teljast fasteignir ekki til vara í skilningi laganna. Fasteign er venjulega skilgreind þannig að um sé að ræða mannvirki sem er varanlega skeytt við land. Ljóst er af gögnum málsins að umræddir vinnuskúrar eru færanlegir og teljast því ekki til fasteigna heldur lausafjár enda hafa þeir ekki verið skráðir hjá Fasteignamati ríkisins. Jafnframt þykir ljóst að skúrarnir hafa verið notaðir af seljanda í virðisaukaskattsskyldri starfsemi við mannvirkjagerð. Það er því álit ríkisskattstjóra að seljanda hafi borið að telja sölu vinnubúðanna til skattskyldrar veltu skv. 11. gr. laga nr. 50/1988.
Þrátt fyrir að umræddar vinnubúðir hafi verið notaðar til dvalar af starfsmönnum um skemmri tíma verður ekki talið að hér sé um að ræða íbúðarhúsnæði í skilningi 2. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Fyrirtækjum er því heimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna öflunar, (þ.m.t. vegna byggingar eða viðhalds) vinnubúða að því leyti sem þær eru notaðar vegna virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Vegagerðin hafði því rétt til innskattsfrádráttar vegna öflunar skúranna og bar því að útskatta þá við sölu.
Að lokum skal bent á að í auglýsingu í Lögbirtingablaði nr. 8/1994 frá ríkisskattstjóra, um reglur um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingarstarfsemi, er gert ráð fyrir útsköttun á notkun slíkra vinnubúða.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir
Afrit:
Skattstjórinn í Norðurlandsumdæmi eystra.
Vegagerðin
Ríkiskaup