Dagsetning                       Tilvísun
20. ágúst 1997                             819/97

 

Virðisaukaskattsbifreið – akstur á milli heimilis og vinnustaðar – bókhald fært á heimili eiganda

Vísað er til bréfs yðar, dags. 11. júlí sl., til Skattstjórans í Norðurlandsumdæmi vestra, sem framsent var til ríkisskattstjóra dags. 16. júlí sl. Í bréfinu óskið þér eftir upplýsingum um hvort þér sé heimilt að geyma virðisaukaskattsbifreið yðar við heimahús þar sem þér færið bókhald vegna búrekstrar þar en búreksturinn er stundaður í 10 km fjarlægð frá heimili yðar.

Til svars bréfi yðar skal fyrst tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, með síðari breytingum, er óheimilt að telja virðisaukaskatt af öflun umræddrar bifreiðar til innskatts nema hún sé eingöngu notuð vegna sölu skattaðila á vörum eða skattskyldri þjónustu. Í 3. mgr. sama ákvæðis segir jafnframt að ökutæki skuli ekki talið notað eingöngu vegna sölu á vörum og skattskyldri þjónustu ef það er notað af eiganda þess eða starfsmanni hans til einkanota þ.m.t. til aksturs milli heimilis og vinnustaðar.

Af framansögðu þykir ljóst að þér er óheimilt að telja virðisaukaskatt af öflun bifreiðarinnar til innskatts ef þér ætlið að nota bifreiðina til aksturs á milli heimilis og vinnustaðar. Í þessu sambandi skiptir ekki máli að þér færið bókhald vegna rekstrarins á heimili yðar enda breytir það heimili yðar ekki sjálfkrafa í vinnustað/starfsstöð þó að þér vinnið einhver verkefni heima.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir

 

1)  Akstur bifreiðar milli tveggja vinnustaða, þ.e.a.s. á milli vinnustaðar og skrifstofu.
2) Hvort viðkomandi bifreið megi standa við skrifstofu þegar hún er ekki í notkun