Dagsetning Tilvísun
21. sept. 1994 643/94
Vísað er til bréfa yðar dags. 5. og 25. júlí sl, um starfsemi Póst – og símamálastofnunarinnar. Í bréfunum er annars vegar fjallað um túlkun á 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga nr. 50/1988 og hins vegar er stutt samantekt þar sem sérstaklega eru skilgreindar bréfapóstsendingar en jafnframt fjallað um aðra starfsemi stofnunarinnar. Hér á eftir verður fyrst fjallað almennt um undanþáguákvæði 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. en síðan tekið sérstaklega á ýmissi starfsemi stofnunarinnar með tilliti til virðisaukaskatts.
Samkvæmt 7. tölul. 3. mgr, 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum, er póstþjónusta undanþegin virðisaukaskatti. Með póstþjónustu er átt við opinbera póstþjónustu, þ.e. þá póstþjónustu Póst- og símamálastofnunarinnar sem hún hefur einkaleyfi á skv. II. kafla póstlaga, nr. 33/1986.
Við samningu frumvarps að lögum um virðisaukaskatt var að mestu leyti tekið mið af lagareglum og reynslu Dana. Í greinargerð með frumvarpinu er sérstaklega vikið að því hagræði sem því fylgir að miða framsetningu og texta, að svo miklu leyti sem um er að ræða sömu efnisákvæði, við löggjöf sem reynsla er komin á. Jafnframt er vikið að því að úrlausn ýmissa vandamála og vafaatriða, sem upp kynnu að koma í framkvæmd ætti að verða mun auðveldari og fljótlegri þar sem hægt væri að styðjast við reynslu annarra í þessum efnum. Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segir um 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. “Samkvæmt 7. tölul. 3. mgr. er póstþjónusta undanþegin skattskyldu, að undanskildum almennum bögglapósti. Rétt er að vekja athygli á því að fjarskipti hvers konar eru skattskyld.”. Við skýringu og túlkun á framangreindum 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. er því litið til danskra leiðbeiningarita um virðisaukaskatt. Þess má geta að danska virðisaukaskattsnefndin úrskurðaði í júní 1967 að sending dagblaða og dreifing ómerktra sendinga væri virðisaukaskattsskyld þjónusta.
Í leiðbeiningum um virðisaukaskatt gefnum út af Skattekartoteket Informationskontor segir í kafla 3-10-380 að opinber póstþjónusta sé ekki með sama hætti í öllum aðildarríkjum Evrópusambandsins og því sé undanþáguákvæðið ekki túlkað á sama veg alls staðar. Jafnframt segir að í Danmörk taki undanþágan til þeirrar þjónustu sem póstþjónustan (Póst- og símamálastofnunin) hafi einkarétt á samkvæmt póstlögum, þ.e. opinber póstþjónusta. Í þessum sama kafla segir svo að önnur þjónusta sem stofnunin afhendir sé því skattskyld eftir almennum reglum laganna. Og er dreifing ómerktra sendinga tekið sem dæmi um skattskylda þjónustu.
Í bréfi yðar er sérstaklega vikið að því að í ályktunardrögum Evrópusambandsins um póstmál muni ekki vera gert ráð fyrir að virðisaukaskattur sé greiddur af póstþjónustu.
Til svars þessu skal tekið fram að annars vegar er um að ræða drög og hins vegar þá fjalla þau um póstmál en ekki skattamál. Á hinn bóginn má benda á að í 13. gr. A (1) (a) 6. tilskipunar Evrópusambandins frá 17. maí 1977 er vikið að því að opinber póstþjónusta skuli undanþegin virðisaukaskatti.
Þess ber þó að geta að þar sem stofnunin er opinber stofnun þá ber henni einungis að innheimta virðisaukaskatt af sölu á annarri þjónustu en opinberri póstþjónustu að því leyti sem hún er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Samkvæmt framansögðu fellur dreifing á opnum ómerktum eða merktum fjöldasendingum ekki undir 4. gr. póstlaga nr. 33/1986 og ber því stofnuninni að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu þegar starfsemin er í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga.
Að lokum skal bent á að hin svokallaða póstfaxþjónusta fellur undir skattskyldusvið virðisaukaskattslaga enda um símaþjónustu að ræða en ekki póstþjónustu, þ.e. sölu á þjónustu í gegnum símalínu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir