Dagsetning                       Tilvísun
10. september 1993                            529/93

 

Virðisaukaskattsskyld starfsemi opinberra aðila

Vísað er til bréfs yðar til fjármálaráðuneytis, dags. 30. ágúst 1993, sem framsent var til embættis ríkisskattstjóra þann 10. september s.á., þar sem óskað er upplýsinga um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna kaupa opinberra aðila á sérfræðiþjónustu.

Í bréfi yðar kemur fram, að samgönguráðuneytið mun á næsta ári standa fyrir átaki til að auka ferðalög Íslendinga í eigin landi. Undirbúningsstarf er þegar hafið. Fram að næsta sumri verður átakið kynnt á meðal hagsmunaaðila, auglýsingar gerðar og átakið skipulagt að fullu. Opinberlega hefst átakið síðan í júní á næsta ári og lýkur í september. Framkvæmd átaksins er alfarið á vegum samgönguráðuneytis. Ráðuneytið hefur sett á stofn þriggja manna nefnd til að stjórna verkinu og hefur hún ráðið sér framkvæmdastjóra. Átakið mun að mestu fjármagnað af einkaaðilum og sveitarfélögum sem verða „styrktaraðilar“ þess. Farið er fram á mat á því, hvort hægt sé að fá endurgreiddan virðisaukaskatt vegna sérfræðiþjónustu er varðar þetta átak, á grundvelli þess að hér sé um opinberan aðila að ræða, þrátt fyrir að fjármagn komi annars staðar frá. Það sé ein af forsendum þess að átakið fái fé frá sem flestum aðilum að ríkið takið ekki til sín hluta fjárframlaga. Sérstaklega eigi þetta við þar sem um er að ræða einn af þeim þáttum sem ríkinu ber að sjá um skv. lögum um skipulag ferðamála nr. 79/1985.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 248/1990 tekur reglugerðin til sveitarfélaga, fyrirtækja þeirra og stofnana og, eftir því sem við á, til ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja. Einnig er skýrt tekið fram í 5. tl. 12. gr. reglugerðarinnar að endurgreiða skuli sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisauka-skatt sem þau greiða við kaup á sérfræðiþjónustu. Þar sem framkvæmd átaksnefndar er alfarið á vegum ríkisstofnunar (samgönguráðuneytis) og eignarhald fjármuna – óháð hvernig þeirra er aflað – er einnig í höndum ríkisstofnunar, þá er ríkisstofnuninni, fyrir hönd nefndar á sínum vegum (átaksnefndar), kleyft að fara fram á endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna sérfræðiþjónustu samkvæmt 5. tl. 12. gr. reglugerðarinnar.

Þess ber að geta, að starfsemi átaksnefndar telst ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki, og er nefndin því ekki með virðisaukaskattsskylda starfsemi með höndum. Þannig ber nefndinni ekki að innheimta virðisaukaskatt t.d. af styrkjum til átaksins – þó þess sé getið í auglýsingabæklingi að tiltekinn aðili styrki verkefnið. Af þessu leiðir einnig að nefndinni er ekki kleyft að nýta sér hefðbundinn innskattsfrádrátt vegna kostnaðar við ferðaátakið.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson