Dagsetning Tilvísun
18. ágúst 1993 515/93
Virðisaukaskattsskyld starfsemi opinberrar stofnunar
Vísað er til bréfs yðar, dags. 2. júlí 1993, þar sem þér farið fram á upplýsingar ríkisskattstjóra um hvaða reglur gilda um virðisaukaskattsskyldu ríkisendurskoðunar vegna endurskoðunarþjónustu við ríkisstofnanir, ríkisfyrirtæki og sjóði, sem reknir eru á ábyrgð ríkissjóðs eða ríkissjóður á að hálfu eða meira.
Í bréfi yðar kemur fram, að tilefni fyrirspurnar yðar eru ráðstafanir gildandi fjárlaga, þar sem gert er ráð fyrir því að stofnunin afli sér sértekna í formi þóknunar fyrir endurskoðun reikninga fyrirtækja og sjóða í B-hluta ríkisreiknings, auk ríkisbankanna.
Samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 248/1990, um virðisaukaskatt af skattskyldri starfsemi opinberra aðila, skulu fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga, stofnanir þeirra eða þjónustudeildir, sem hafa það að meginmarkmiði að framleiða vörur eða inna af hendi þjónustu til eigin nota, greiða virðisaukaskatt af starfsemi sinni að því leyti sem hún er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Við innheimtu á útskatti skal skattverð miðað við almennt gangverð í sams konar viðskiptum og við skil á skatti í ríkissjóð skal innskattur af aðföngum dreginn frá útskatti samkvæmt almennum reglum.
Sú þjónusta, sem ríkisendurskoðun býður viðskiptaaðila gegn gjaldi, er þess eðlis að hún telst rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi á.n. reglugerðarákvæðis, og ber stofnuninni því að innheimta virðisaukaskatt af sölu þeirrar þjónustu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.