Dagsetning Tilvísun
26. janúar 1996 715/96
Virðisaukaskattsskylda erlends aðila á Íslandi
Vísað er til bréfs yðar dags. 28. júlí 1995, þar sem fjallað er um virðisaukaskattsskyldu erlends aðila á Íslandi.
Í bréfi yðar kemur fram að í framhaldi af munnlegri ábendingu hafið þér óskað eftir upplýsingum frá H um það, hvort erlendir aðilar störfuðu að viðgerðum á orgeli kirkjunnar. Í svarbréfi kirkjunnar kemur fram að enskir aðilar hafi starfað hér að viðgerðum á orgelinu dagana 20.06. til 04.07. 1995. Virðisaukaskattur var ekki innheimtur fyrir þjónustuna og upphæð reiknings GBP 7.245.
Hinn erlendi aðili tilkynnti ekki um starfsemi sína hér á landi.
Yður finnst skorta á að fyrir liggi mótaðar starfsreglur um framkvæmd álagningar þegar málavextir eru svo sem að framan greinir og sendið því málið til ríkisskattstjóra til umfjöllunar.
Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, eru erlendir aðilar sem selja hér á landi skattskylda þjónustu samkvæmt lögum um virðisaukaskatt skyldir til að tilkynna starfsemi sína til skattstjóra, innheimta virðisaukaskatt af þessum viðskiptum og standa skil á honum í ríkissjóð.Skráningar- og skilaskylda fellur þó niður ef skattskyld velta er undir 194.400 kr. á ári (miðað við árið 1995) sbr. 3. tölul. 4. gr. virðisaukaskattslaga. Ríkisskattstjóri telur þetta ákvæði gilda um þá aðila sem hafa fasta starfsstöð hér á landi.
Hafi erlent fyrirtæki, sem rekur skattskylda starfsemi hérlendis ekki starfsstöð hér á landi (útibú eða dótturfyrirtæki) hvílir skilaskyldan á umboðsmanni þess eða öðrum aðila sem er í fyrirsvari fyrir það, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.
Ríkisskattstjóri telur að samkvæmt framansögðu hvíli skráningarskyldan í þessu tilviki á H, sem teljist vera í fyrirsvari fyrir hið erlenda fyrirtæki hér á landi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir