Dagsetning Tilvísun
15. september 1992 421/92
Virðisaukaskattsskylda fyrirtækis í eigu sveitarfélags.
Fjármálaráðuneytið hefur sent ríkisskattstjóra til afgreiðslu erindi yðar, dags. 25. febrúar 1992, þar sem leitað er álits á virðisaukaskattsskyldu fyrirtækis í eigu sveitarfélaga sem fyrirhugað er að stofna. Jafnframt er spurt um túlkun á 4. tl. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990, það er um endurgreiðslurétt sveitarfélaganna við kaup á þjónustu frá fyrirtækinu.
Samkvæmt því sem fram kemur í bréfi yðar er „tilgangur fyrirtækisins … allt almennt björgunarstarf, almannavarnir og slökkvistarf. – Fyrirtækið kemur til með að selja þjónustu sína til einkaaðila og opinberra aðila skv. útgefinni gjaldskrá.“ Ekki kemur fram hvaða rekstrarform fyrirhugað er að hafa á fyrirtæki þessu.
Til svars erindinu tekur ríkisskattstjóri fram eftirfarandi:
Um skattskyldu fyrirtækisins
1. Björgunarþjónusta, slökkviþjónusta og skyld starfsemi er efnislega skattskyld samkvæmt meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, þar sem segir að skattskylda samkvæmt lögunum taki til allar vinnu og þjónustu, hverju nafni sem nefnist, sem ekki er sérstaklega undanþegin.
2. Þótt hér sé um að ræða efnislega skattskylda starfsemi er ekki þar með sagt að umrætt fyrirtæki sé skráningarskyldur skattaðili samkvæmt lögunum, þ.e. að því sé skylt að innheimta og skila virðisaukaskatti. Um skattskyldu fyrirtækisins skiptir m.a. máli hvaða rekstrarformi því er valið. Erindið er óljóst að þessu leyti og verður því gerð grein fyrir nokkrum meginreglum í þessu sambandi:
(a) Ef fyrirtækið er rekið með takmarkaðri ábyrgð eigenda (hlutafélag) fer um skattskyldu samkvæmt almennum reglum virðisaukaskattslaganna, sbr. 1. tölul. l. mgr. 3. gr. þeirra. Í þessu tilviki telst sala þess á skattskyldri þjónustu, þ.m.t. björgunarþjónustu o.s.frv., til skattskyldrar veltu eftir þeim reglum sem greinir í IV. kafla laganna.
(b) Ef fyrirtækið er rekið með ótakmarkaðri ábyrgð virðist það ekki vera skráningarskylt þótt þjónusta sem það veitir falli innan skattskyldusviðs laganna. Byggist þetta á reglu 4. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna, þar sem segir að fyrirtæki ríkis og/eða sveitarfélaga séu skattskyld að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni. við atvinnufyrirtæki. Ríkisskattstjóri túlkar 4. tölul. þannig að ákvæðið taki eingöngu til stofnana og fyrirtækja ríkis og/eða sveitarfélaga sem undanþegin eru skattskyldu samkvæmt tekjuskattslögum, sbr. 2. og 3. tölul. 4. gr. þeirra. Í ákvæðinu felst m.a. að fyrirtæki í eigu sveitarfélags er ekki virðisaukaskattsskylt vegna sölu á þjónustu, sem skattskyld er samkvæmt meginreglum laganna, nema sambærileg þjónusta sé einnig veitt af atvinnufyrirtækjum. Ríkisskattstjóra er ekki kunnugt um að þjónusta af því tagi sem lýst er í erindinu sé fáanleg á almennum markaði.
Um endurgreiðslurétt sveitarfélags
3. Samkvæmt 4. tölul. 12. gr. reglugerðar nr. 248/1990 skal endurgreiða sveitarfélögum og ríkisstofnunum virðisaukaskatt af björgunarstörfum og öryggisgæslu vegna náttúruhamfara og almannavarna. Að áliti ríkisskattstjóra ber að skýra þetta ákvæði þannig að átt sé við virðisaukaskatt sem sveitarfélag eða ríkisstofnun hefur greitt við kaup á vinnu og þjónustu við björgun fólks og eigna vegna náttúruhamfara, svo og eftirfarandi öryggisgæslu af sama tilefni. Hugtakið náttúruhamfarir þykir bera að skýra með sama hætti og gert er í 4. gr. laga nr. 88/1982 um Viðlagatryggingu Íslands; átt er við eldgos, jarðskjálfta, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð.
Hugtakið björgunarstörf tekur að áliti ríkisskattstjóra einnig til starfa við hreinsun t.d. gatna og lóða eftir áðurgreindar náttúruhamfarir, enda er með slíkum aðgerðum jafnan forðað frekara tjóni. Hins vegar fellur kostnaður við t.d. viðgerðir fyrir utan endurgreiðsluákvæðið. Vinna við slökkvistörf fellur fyrir utan ákvæðið nema eldar kvikni af völdum náttúruhamfara af framangreindu tagi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkiskattstjóra
Vala Valtýsdóttir.