Dagsetning                       Tilvísun
18. ágúst 1997                             817/97

 

Virðisaukaskattsskylda og uppgjör á virðisaukaskatti vegna innflutnings á notuðum og nýjum bifreiðum og gildissvið 10. gr. vskl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 3. júlí 1997, þar sem óskað er eftir afstöðu ríkisskattstjóra til ýmissa bifreiðaviðskipta með tilliti til virðisaukaskatts.

Við svar á fyrirspurn yðar skulu fyrst skýrðar þær reglur sem gilda um kaup og sölu innfluttra bifreiða og síðan þær reglur sem gilda um kaup og sölu bifreiða keyptum innanlands. Í svarinu er gert ráð fyrir því að seljandi kaupi og selji bifreiðar í atvinnuskyni og sé því virðisaukaskattsskyldur.

Í fyrsta lagi skal tekið fram að við innflutning bifreiða, nýrra sem notaðra, er virðisaukaskattur innheimtur af tollverði skattskyldrar vöru að viðbættum tolli og öðrum gjöldum sem á eru lögð við tollmeðferð, sbr. 1. mgr. 34. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (hér eftir vskl.). Um ákvörðun tollverðs gilda ákvæði þar að lútandi í tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, sbr. 2. mgr. 34. gr. vskl. Að öðru leyti vísast til ákvæða XI. kafla vskl.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. vskl. nær skattskyldan til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra. Aðila sem í atvinnuskyni flytur inn og selur bifreiðar ber því að innheimta virðisaukaskatt af heildarverði seldra bifreiða, þ.e. hér gilda almennar reglur um skattverð skv. 7. gr. vskl. Skilyrði fyrir því að geta nýtt sér skattverðsreglu 10. gr. vskl. er að virðisaukaskattur komi ekki fram á reikningi við söluna til endurseljanda, sbr. athugasemdir við ákvæðið með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt, sbr. og 3. mgr. 10.gr., sbr. 17. gr. laga nr. 122/1993. Þó að ekki sé beinlínis tekið á innflutningi í ákvæði 10. gr. þá leiða samræmingarrök til þess að ekki er heimilt að nýta sér skattverðsregluna vegna innfluttra bifreiða þar sem virðisaukaskattur kemur fram á greiðsluskjali frá tollyfirvöldum.

Hvað varðar kaup og sölu bifreiða í atvinnuskyni að uppfylltum skilyrðum 10. gr. sbr. það sem segir hér að framan um gildissvið ákvæðisins þá eru jafnframt í gildi sérreglur varðandi uppgjör á virðisaukaskatti þegar skattverðsreglan er notuð. Í 8. mgr. 16. gr. vskl. segir að þeir aðilar, sem um ræðir í 1. mgr. 10. gr. (ekki bílaleigur og tryggingarfélög), geti við skil á virðisaukaskatti dregið frá reiknuðum útskatti á hverju uppgjörstímabili 19,68% af neikvæðum mismun á söluverði og innkaupsverði seldra ökutækja á viðkomandi uppgjörstímabili, enda eigi formskilyrði 3. mgr. 10. gr. við um söluna.

Af framansögðu leiðir að seljandi bifreiða sem bæði flytur inn bifreiðar og selur og kaupir bifreiðar innanlands til endursölu, þar sem honum er heimilt að nota skattverðsreglu 10. gr., verður að halda sérstaklega utan um þær bifreiðar sem falla undir skattverðsreglu 10. gr.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.