Dagsetning                       Tilvísun
24. apríl 1995                            679/95

 

Virðisaukaskattsskylda U og Samstarfshóps um sölu á lambakjöti.

Með vísan til bréfs yðar, dags. 12. september 1994, óskið þér álits ríkisskattstjóra á skattskyldu U og Samstarfshóps um sölu á lambakjöti.

U.

Í bréfi yðar segir m.a.:

“Í samþykktum U segir m.a.:

“Tilgangur félagsins er að annast á breiðum grundvelli kynningar- og fræðslustarf um landbúnaðinn og framleiðsluvörur hans og efla með því jákvæða ímynd bændastéttarinnar í huga þjóðarinnar.”

Starfsemin er fjármögnuð með framlögum ýmissa aðila og stofnana tengdum landbúnaði, sbr. nánar ársreikning 1993. Á árinu 1993 var félagið einvörðungu fjármagnað með styrkjum en tekjur vegna sölu á vörum eða þjónustu voru engar. Það er hins vegar fyrirséð að sértekjur gætu í framtíðinni orðið einhverjar. T.d. er unnið að útgáfu s.k. kjötbókar sem er handbók fyrir kjötkaupendur og fagmenn í kjötiðnaði. Bókin er fyrst og fremst ætluð þeim sem versla með kjöt en hugsanlegt er að bókin verði boðin almenningi til kaups. Fyrsta upplag bókarinnar verður 2000 eintök og reynt verður að miða söluverð hennar við það að það standi undir útgáfukostnaði en ekki er ljóst hvort það gengur eftir. Líklegt er að U eigi eftir að takast á hendur fleiri svipuð verkefni.”

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Samkvæmt lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er öll vinna og þjónusta svo og vörusala virðisaukaskattsskyld, nema hún sé sérstaklega undanþegin í lögunum. Samkvæmt 3. tölul. 4. gr. laganna eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 100.000 krónur á ári undanþegnir skattskyldu. Fjárhæðin breytist 1. janúar ár hvert í samræmi við byggingavísitölu, frá 1. janúar 1995 er hún krónur 194.400. Ef aðili hefur með höndum fleiri en eina tegund vörusölu eða þjónustu þá miðast upphæðin við heildarsölu aðila, en ekki við hvern vöruflokk fyrir sig.

Samkvæmt ársskýrslu forstöðumanns fyrir árið 1993 er starfseminni skipt upp í eftirfarandi svið: Skólasvið, fjölmiðlasvið, útgáfusvið, almennt þjónustusvið og markaðsdeild. Starfsemi U virðist ekki nema að takmörkuðu leyti vera fólgin í sölu á vöru og þjónustu, heldur að mestu leyti fólgin í því að safna fé til að koma á framfæri vöru og auka ímynd bændastéttarinnar á Íslandi og það án endurgjalds. Helstu tekjur eru framlög opinberra aðila, mótteknir styrkir og framlög frá hagsmunaaðilum úr röðum bændastéttarinnar auk óverulegra sértekna.

Samkvæmt framansögðu fær ríkisskattstjóri ekki séð að starfsemi félagsins á sviði skólasviðs, fjölmiðlasviðs og annarra þeirra sviða, sem ekki hafa með að gera afmarkaða sölu á vöru eða þjónustu, sé virðisaukaskattsskyld starfsemi. Hér virðist sem starfsemi þessi sé ekki í beinni samkeppni við atvinnufyrirtæki og kostuð með skatttekjum, ríkisframlagi eða framlögum hagsmunaaðila. Hins vegar er útgáfu-starfsemi, svo sem bókaútgáfa, bæklingagerð ýmis konar, virðisaukaskattsskyld að því marki sem tekjur af henni eru að jafnaði umfram kostnað af aðföngum sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar og samanlagðar tekjur af útgáfustarfseminni og annarri sölu fari fram úr 194.400 kr. (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1995) á tólf mánaða tímabili. Nánari umfjöllun um útgáfustarfsemi er að finna í meðfylgjandi leiðbeiningabæklingi RSK um útgáfustarfsemi. Ef um aðra sérgreinda þjónustu er að ræða, þ.e. þegar einstaka aðilum er veitt sérstök þjónusta og innheimt gjald fyrir, þá er slík starfsemi virðisaukaskattsskyld.

Samkvæmt túlkun tekjuskattsskrifstofu ríkisskattstjóra er U undanþegin tekju- og eignarskatti skv. 4. gr. laga nr. 75/1981. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt, mega slíkir aðilar einungis telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim aðföngum sem eingöngu varða sölu á skattskyldri vöru eða þjónustu.

Samstarfshópur um sölu á lambakjöti.

Samkvæmt meðfylgjandi gögnum um Samstarfshóp um sölu á lambakjöti kemur fram að ekki er um að ræða eiginlega sölu á vörum eða þjónustu. Er hér um að ræða vinnu er lýtur að því að koma íslensku lambakjöti á markað innanlands og erlendis án þess að verið sé að selja einhverjum afmörkuðum hópi manna þjónustu. Er það álit ríkisskattstjóra að umrædd starfsemi sé ekki virðisaukaskattsskyld, enda kostnaður við hana greiddur að mestu með framlögum frá opinberum aðilum, sem fá ekkert endurgjald fyrir framlagið, auk hlutdeildar í skatttekjum. Hins vegar er sú starfsemi virðisaukaskattsskyld þegar ákveðin afmörkuð verkefni eru unnin fyrir þá sem veita framlög, þannig að þeir sem inna framlög af hendi fá þannig endurgjald fyrir það framlag sem veitt er. Að öðru leyti vísast í umfjöllun hér að framan.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir

 

Hjálagt: Leiðbeiningar um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi.