Dagsetning Tilvísun
30. nóvember 1993 585/93
Virðisaukaskattsskylda vegna námskeiðahalds
Vísað er til bréfs yðar, dags. 1. ágúst 1993 þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort innheimta beri virðisaukaskatt af námskeiðum í ofurminnistækni en þér teljið námskeiðin ekki vera virðisaukaskattsskyld . Í bréfi yðar kemur fram ofurminnistækni sé ákveðin aðferð sem auðveldar fólki að muna, t.d. erlend orð, símanúmer, ýmis námsefni o.fl. Tæknin byggir á grundvallaraðferð sem er kennd í öllum barnaskólum landsins þ.e.a.s. að tengja á myndrænan hátt það atriði sem á að muna við eitthvað sem er nú þegar þekkt.
Mennta- og kennslustarfsemi sem er undanþegin virðisaukaskatti er sú starfsemi sem fellur undir undanþáguákvæði 3. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Samkvæmt þessu er rekstur skóla og menntastofnana, svo og ökukennsla, flugkennsla og danskennsla undanþegin virðisaukaskatti.
Í greinargerð með frumvarpi til laga um virðisaukaskatt segir m.a. um rekstur skóla og menntastofnana:
„Til reksturs skóla og menntastofnana … telst öll venjuleg skóla-og háskólakennsla, fagleg menntun, endurmenntun og önnur kennslu- og menntastarfsemi. Til undanþeginnar starfsemi samkvæmt þessu, auk hefðbundinnar skóla- og menntastarfsemi, telst t.d. starfsemi málaskóla, tónlistarkennsla og námskeið eða kennsla í skrifstofu og stjórnunarfræðum.“
Við mat á því hvort slíkt ofurminnisnámskeið sé undanþegið virðisaukaskatti er höfð hliðsjón af því hvort boðið sé upp á það í hinu almenna skólakerfi eða ekki. Hafi námsgreinin t.d. unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi ber samkvæmt framansögðu að líta svo á að skóla- eða námskeiðsgjöld séu undanþegin virðisaukaskatti.
Ríkisskattstjóri telur að sú kennsla sem fram fer í ofurminnistækni geti ekki talist hafa unnið sér fastan sess í hinu almenna skólakerfi þar sem þarna er ekki um hefðbundna skóla eða menntastarfsemi að ræða. Ber yður því að innheimta virðisaukaskatt af námskeiðahaldi yðar.
Virðingarfyllst
f.h. ríkisskattstjóra
Grétar Jónasson