Dagsetning                       Tilvísun
17. september 1993                            537/93

 

Virðisaukaskattsskylda vegna útleigu á sal.

Með bréfi yðar, dags. 21. janúar sl., er óskað álits ríkisskattstjóra á skattskyldu vegna útleigu á sal átthagafélags.

Áður en vikið verður að þeim spurningum sem varpað er fram í erindi yðar þykir rétt að geta þess að með lögum 106/1990 var bætt í 8. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga ákvæði þess efnis að útleiga veitinga- og samkomuhúsnæðis væri skattskyld þrátt fyrir almennu regluna um að fasteignaleiga sé utan skattskyldusviðs. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að tilgangur þess sé að jafna samkeppnisstöðu veitingahúsa gagnvart þeim sem leigja út sali til samkomuhalds í einstökum tilvikum. Jafnframt segir að ákvæðið komi í veg fyrir að hægt sé að komast hjá greiðslu virðisaukaskatts að hluta af veitinga- og samkomuhaldi við leigu á samkomusal og kaup á mat með því að færa kostnað frá skattskyldu sölunni yfir á þá skattfrjálsu.

Með b-lið laga 111/1992 var aukið við 8. tl. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga og áréttað að skattskyldan næði aðeins til þess þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar.

Hér á eftir verður spurningum yðar svarað í sömu röð og þær eru lagðar fram í tilvitnuðu erindi yðar.

  1. Leiga á sal til dansskóla í nokkra mánuði er undanþegin virðisaukaskattsskyldu þar sem ríkisskattstjóri túlkar 8. tl. 2. gr. laga nr. 50/1988 virðisaukaskattslaga þannig að skammtímaleiga samkomuhúsnæðis sem ekki er í tengslum við sölu eða framreiðslu veitinga sé utan skattskyldusviðs. Þannig er leiga á sal til dansskóla utan skattskyldusviðs. Sé á hinn bóginn veitingasala samhliða dansskólanum þá er um virðisaukaskattsskyldu að ræða ef leigutíminn er skemmri en einn mánuður.
  1. Hvað varðar leigu á sal til heilsuræktarstöðvar til fundarhalda eða námskeiðahalds þá er slík leiga virðisaukaskattsskyld sé leigt til skemmri tíma en eins mánaðar og veitingasala er fyrir hendi. Sé á hinn bóginn ekki veitingasala fyrir hendi þá er ekki um virðisaukaskattsskyldu að ræða og skiptir þá ekki máli hve langur leigutíminn er.
  1. Leiga á sal til einstaklinga t.d. vegna brúðkaups, fermingar eða annarra álíka samkomna er skattskyld þegar eðli máls samkvæmt er gert ráð fyrir sölu eða framreiðslu veitinga. Ekki skiptir máli varðandi skattskylduna hvort leigutaki kaupir veitingar af leigusala eða þriðja manni eða leggur þær til sjálfur. Hins vegar er útleigan ekki skattskyld ef veitingar eru eingöngu seldar einstökum gestum, enda séu þær framreiddar utan hins útleigða húsnæðis.
  1. Leiga til fundarhalda með veitingum er virðisaukaskattsskyld, en sé leigt án veitinga þá er ekki um skattskyldu að ræða. Ekki skiptir máli varðandi skattskyldu hvort það er virðisaukaskattsskyldur aðili sem leigir eða ekki.
  1. Leiga salar til dansleikjahalds félagasamtaka eða einstaklinga er ekki skattskyld. Sé bar hafður opinn eða aðrar veitingar framreiddar þá er um skattskyldu að ræða.

Á það má benda að því aðeins er um skattskyldu að ræða að veltan fari yfir kr.185.200 (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993) á ári.

 

Virðingarfyllst

f.h. ríkisskattstjóra

Grétar Jónasson