Dagsetning                       Tilvísun
22. feb. 1991                           268/91

 

Virðisaukaskattur.

Vísað er til erindis yðar, dags. 19. janúar 1990, þar sem varpað er fram ýmsum fyrirspurnum um virðisaukaskatt.

  1. Spurt er hvort útseldur akstur bifreiðar af Lada Sport gerð við akstur á mönnum og verkfærum til vinnu sé virðisaukaskattsskyldur og hvort innskattur fáist vegna reksturs bifreiðarinnar.

Svar: Öll flutningaþjónusta er virðisaukaskattsskyld, sbr. meginreglu 2. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Til skattverðs telst meðal annars sendingarkostnaður og slíkur kostnaður sem er innifalinn í verði eða sem seljandi krefur kaupanda sérstaklega um, sbr. 7. gr. laganna. Af þessum reglum leiðir að innheimta ber virðisaukaskatt af útseldum akstri, hvort sem um er að ræða sérgreinda sölu á flutningaþjónustu eða innheimt er fyrir akstur í tengslum við aðra sölu á vöru eða skattskyldri þjónustu. – Til innskatts má ekki telja öflun, rekstur eða leigu fólksbifreiða sem gerð er fyrir níu menn eða færri (nema aðili hafi með höndum leigu eða sölu slíkra bifreiða), sbr. 6. tölul. 3. mgr. 16. gr. laganna. Þetta á jafnt við þótt bifreiðin sé að fullu nýtt til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi og útskattur reiknaður af akstri. Sjá nánar reglugerð nr. 81/1991, um innskatt, sem hjálagt fylgir.

  1. Spurt er um túlkun á undanþáguákvæði 7. tölul. 1. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga (viðgerðar- og viðhaldsvinna við skip).

Svar: Samkvæmt undanþáguákvæði þessu er viðgerðar- og viðhaldsvinna, sem unnin er við skip (þó ekki skemmtibáta) og fastan útbúnað þeirra, svo og varahlutir sem viðgerðaraðili notar og lætur af hendi í því sambandi, undanþegnir skattskyldri veltu. Undanþágan tekur ekki til sölu varahluta til viðgerðar á skipum ef annar aðili annast viðgerðina.

Samkvæmt framansögðu ber fyrirtæki að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu tækja, búnaðar, efnis eða varahluta í skip þegar það annast ekki sjálft viðgerð eða uppsetningu.

  1. Spurt er hvort til sé skilgreining á því hvaða blöð og tímarit eru undanþegin virðisaukaskatti.

Svar: Til svars vísast til hjálags bréfs ríkisskattstjóra, dags. 16. mars 1990, um virðisaukaskatt af bókum og tímaritum.

  1. Spurt er um virðisaukaskatt af umboðslaunum (a) vegna sölu dagblaða og tímarita, (b) vegna bóksölu, (c) vegna sölu bensíns og olíuvara og (d) vegna sölu happdrættis- og lottómiða.

Svar: (a) Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum eru dagblöð og tímarit seld í umsýslusölu. Útgefandi afhendir tiltekinn fjölda eintaka til söluaðila sem síðan skilar óseldum eintökum. Söluaðili fær ákveðinn hundraðshluta af útsöluverði seldra eintaka í sölulaun. Þannig fer salan fram í nafni söluaðila en fyrir reikning og áhættu útgefandans.

Í grundvallaratriðum gera lög um virðisaukaskatt engan mun á umsýslusölu og almennri endursölu (sölu sem fram fer fyrir reikning endurseljanda). Sala eða afhending á vöru sem seld er í umsýslusölu telst til skattskyldrar veltu skráðs aðila, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna. Skattverð miðast við heildarsöluverð hins selda, sbr. almennar reglur um skattverð í 7. gr. laganna. Þannig er ekki um það að ræða í viðskiptum umsýsluveitanda og umsýslumanns að virðisaukaskattur reiknist sérstaklega af söluþóknun (andstætt því sem gildir um þjónustu miðlara, t.d. fasteignasala) heldur er hún hluti af skattverði umsýslumanns. Afhending vöru frá umsýsluveitanda til umsýslumanns telst og til skattskyldrar veltu skráðs umsýsluveitanda. Hins vegar á hann val um það hvort hann telur söluna til skattskyldrar veltu við afhendingu eða þegar uppgjör fer fram við umsýslumann, sbr. 4. mgr. 13. gr., enda gæti hann skilyrða þess ákvæðis.

Sala dagblaða og tímarita, jafnt í áskrift sem lausasölu, er undanþegin skattskyldri veltu, sbr. 9. tölul. l. mgr. 12. gr. virðisaukaskattslaga. Ákvæðið tekur einnig til viðskipta sem fram fara í umsýslusölu, sbr. þær almennu reglur sem reifaðar eru hér að framan.

Samkvæmt framansögðu krefja söluaðilar dagblaða og tímarita útgefendur ekki sérstaklega um virðisaukaskatt vegna sölulauna.

(b) Að því leyti sem bóksala fer fram í umsýslusölu gilda þær reglur sem reifaðar voru í (a) hér að framan.

(c) Engar sérreglur gilda um skil virðisaukaskatts af sölu bensíns og olíuvara, sbr. hins vegar þá reglu söluskattslaga að innflytjendur þessara vara greiddu söluskatt af smásöluverði við sölu eða afhendingu til umboðsmanna sinna. Því skulu þeir sem selja bensín og olíuvörur í smásölu innheimta og skila virðisaukaskatti af smásöluverði, en telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem fram kemur á reikningum heildsala (olíufélaganna).

(d) Happdrætti og getraunastarfsemi eru undanþegin virðisaukaskattsskyldu, sbr. 11. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Undanþágan tekur einnig til þess hluta söluandvirðis happdrættismiða o.s.frv. sem rennur til söluaðila, þ.e. söluþóknunar.

  1. Spurt er hvort starfsemi greiðslukortafyrirtækjanna sé talin virðisaukaskattsskyld.

Svar: Það er túlkun ríkisskattstjóra að starfsemi greiðslukortafyrirtækja falli undir ákvæði 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga (þjónusta lánastofnana). Því innheimta þau ekki virðisaukaskatt af þóknun fyrir þjónustu sína.

  1. Spurt er hvort félagsgjöld sem fyrirtækið greiðir til ýmissa fagfélaga (B, F, V o.fl.) séu virðisaukaskattsskyld.

Svar: Almenn félagsgjöld félagasamtaka, þ.e. þegar ekki er um að ræða endurgjald fyrir sérgreinda þjónustu, eru ekki skattskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt. Í þessu falli á engin skattskyld greiðsla sér stað af hálfu félagsins. Félagsgjöld af því tagi er nefnd eru í fyrirspurn yðar eru því ekki virðisaukaskattsskyld.

  1. Spurt er hvort gjald fyrir heilbrigðiseftirlit sveitarfélags sé virðisaukaskattsskylt.

Svar: Hér er um að ræða greiðslur til sveitarstjórnar vegna starfsemi sem sveitarfélagið hefur með höndum í krafti opinbers valds og ekki er rekin í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Umræddar greiðslur eru því ekki virðisaukaskattsskyldar, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.