Dagsetning Tilvísun
22. desember 1997 832/97
Virðisaukaskattur – ábyrgðargjald – eiginleg bankastarfsemi – fasteignatengd réttindi
Vísað er til bréfs yðar dags. 14. október 1997 þar sem þér spyrjið hvort aðilar sem innheimt hafi sérstakt gjald fyrir að ábyrgjast skuldbindingar annarra skuli innheimta virðisaukaskatt af því.
Í bréfi yðar segir m.a. að aðili A biðji aðila B að skrifa á skuldabréf og víxla sem sjálfskuldarábyrgðaraðili. A veðsetji jafnframt fasteignir í eigu B með skuldum sem A sé skuldari að, en B innheimti svo kallað ábyrgðargjald fyrir þetta. Gjaldið nemi frá 1% til 4% af höfuðstól umræddra skulda og reiknist mánaðarlega. Alls nemið gjaldið um 11.000.000 á einu ári. Ekki sé um frekari gjaldtöku að ræða milli umræddra aðila. Viðskipti þeirra séu einvörðungu fólgin í því að B samþykki að gerast sjálfskuldar-ábyrgðaraðili fyrir skuldum A, ásamt því að samþykkja að skuldir A verði veðsettar á fasteignum í eigu B. Að öðru leyti sé starfsemi B fólgin í ýmsu, s.s. útleigu fasteigna, fjármálaumsýslu, lögfræðistörfum o.fl.
Að áliti ríkisskattstjóra er sá þáttur í starfsemi B sem þér spyrjið um undanþeginn virðis¬auka¬¬skatti eins og hér á eftir nánar greinir.
Samkvæmt 10. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, er þjónusta banka, sparisjóða og annarra lánastofnana, svo og verðbréfamiðlun, undanþegin virðisaukaskatti. Í greinargerð með frumvarpi til laganna kemur fram að undir ákvæði falli eiginleg banka- og lánastarfsemi. Sala svokallaðra bankaábyrgða er þáttur í slíkri starfsemi og því er það álit ríkisskattstjóra að sú starfsemi B að gangast í ábyrgðir fyrir aðra gegn gjaldi sé undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt umræddum tölulið.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. er fasteign ekki vara í skilningi laga nr. 50/1988 og því ber sala hennar ekki virðisaukaskatt. Jafnframt er fasteignaleiga undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. Það er því álit ríkisskattstjóra að framsal óbeinna eignaréttinda sem felst í því að lána veð í fasteign gegn gjaldi sé ekki virðisaukaskattsskylt.
Rétt er að þér vekið athygli bankaeftirlitsins á umræddri starfsemi viðkomandi aðila.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ingibjörg Ingvadóttir