Dagsetning                       Tilvísun
14. apríl 1990                              46/90

 

Virðisaukaskattur – aðföng hótela.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 5. janúar 1990, þar sem spurt er hvort möguleiki sé á undanþágu frá virðisaukaskatti vegna herbergjaþjónustu sem tiltekið hótel kaupir af atvinnufyrirtæki.

Herbergjaþjónusta felst í því að búa um rúm gestanna, taka til, skipta um handklæði, sápur og aðrar hreinlætisvörur, ryksuga gólf, hreinsa húsgögn o.fl.

Til svars erindinu skal tekið fram að herbergjaþjónusta, veitt af atvinnufyrirtækjum, er skattskyld starfsemi. Undanþágur skv. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt ná aðeins til sölu eða afhendingar vinnu og þjónustu sem þar getur, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til hinnar undanþegnu starfsemi, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Engin heimild er til að veita undanþágur frá þessu ákvæði. Þannig verður ekki hjá því komist að hótel kaupi umrædda þjónustu með virðisaukaskatti.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.