Dagsetning                       Tilvísun
7. febrúar 1996                             718/96

 

Virðisaukaskattur – aðgangseyrir að ljósmyndasýningu – tekjuskráning – bókhald o.fl.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 12. janúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á ýmsum atriðum varðandi virðisaukaskatt af starfsemi ljósmyndafélags.

Í bréfi yðar er starfsemi félagsins lýst á eftirfarandi hátt:

  • Félagið efnir mánaðarlega yfir veturinn til myndasýninga.
  • Annars vegar er um að ræða sýningar áhugaljósmyndara á litskyggnum sínum.
  • Hins vegar er um að ræða aðgang að kaffihlaðborði.
  • Selt er inn á myndasýningarnar og kostar aðgangurinn kr. 600 og er hvort tveggja myndasýning og kaffihlaðborð innifalið í aðgangseyri (án sundurliðunar).
  • Aðgöngumiðinn er fjölritað blað sem á er ritað hlaupandi númer frá einum og upp í ca. 150 hverju sinni.
  • Tekjur af myndakvöldum eru mismunandi og nokkur kostnaður er þeim samfara.

Í bréfi yðar er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort ofangreind starfsemi er virðisaukaskattsskyld og þá að hvaða leyti ásamt því að óskað er eftir leiðbeiningu um hvaða reglur gildi um tekjuskráningu og bókhald.

Til svars erindinu skal tekið fram að aðgangseyrir að ljósmyndasýningum er undanþeginn virðisaukaskatti, sbr. 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Aftur á móti er sala veitinga virðisaukaskattsskyld starfsemi og skiptir ekki máli þótt hún sé innifalinn í sölu undanþeginnar starfsemi. Í þessu sambandi skal bent á að í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. virðisaukaskattslaga kemur fram að félögum, enda þótt þau séu undanþegin skattskyldu samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, beri skylda til að innheimta og skila virðisaukaskatti að því leyti sem þau selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Að vísu eru þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 100.000 kr. á ári (nú 200.600 kr.) undanþegnir skattskyldu.

Hvað varðar skiptingu veltu í virðisaukaskattsskylda sölu og undanþegna þá er það álit ríkisskattstjóra að ef aðgangur að ljósmyndasýningu er seldur ásamt annarri virðisaukaskatts-skyldri vöru eða þjónustu sem ein heild ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarsöluverði eða heildarandvirði hins selda, einnig þótt undanþáguákvæðið taki til sölu aðgangs að sýningunni ef hann er seldur sérstaklega. Í þessu sambandi er það afgerandi að kaupandi hefur ekki frjálst val um að kaupa sérstaklega annað hvort aðgang að sýningunni eða veitingarnar. Ef aftur á móti er sérstaklega selt annars vegar aðgangurinn og hins vegar veitingar og kaupandi hefur frjálst val um hvort hann kaupir aðgang að sýningunni, veitingar eða hvort tveggja þá er hægt að aðgreina sölu eftir því hvort um virðisaukaskattsskylda sölu er að ræða eða undanþegna.

Einnig er í erindi yðar óskað álits ríkisskattstjóra á því hvernig tekjuskráningu skuli háttað. Til svars þessu skal tekið fram að virðisaukaskattsskyldar smásöluverslanir og þjónustusalar sem nær eingöngu selja til endanlegra neytenda skulu annaðhvort gefa út sölureikning við sérhverja afhendingu sína eða skrá sérhverja afhendingu á vöru eða þjónustu í sjóðvél jafnskjótt og hún fer fram, sbr. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Samkvæmt þessu er félaginu heimilt að skrá tekjur annað hvort í sjóðvél eða með útgáfu sölureikninga. Ef umrætt félag notar sölureikninga við tekjuskráningu er því heimilt að nota sömu reikningseyðublöð fyrir bæði hinn skattskylda þátt starfseminnar og hinn undanþegna enda séu uppfyllt ákvæði 4. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 en þar kemur fram að við sölu, sem er að hluta til skattskyld og að hluta til undanþegin skatti, skuli halda viðskiptum, sem eru skattskyld, greinilega aðgreindum á reikningi frá öðrum viðskiptum. Um form og efni sölureikninga er vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993.

Að lokum skal bent á að ef starfsemi aðila er að hluta skattskyld en að hluta undanþegin skattskyldu, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, skal hann í bókhaldi sínu aðgreina hin skattskyldu viðskipti frá undanþegnum viðskiptum, bæði hvað varðar tekjur og gjöld, sbr. 1. mgr. 23. g. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Að öðru leyti er vísað til meðfylgjandi reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.