Dagsetning                       Tilvísun
13. febrúar 1996                             719/96

 

Virðisaukaskattur – ættfræðiþjónusta.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. nóvember 1995, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á því hvort ættfræðiþjónusta sé virðisaukaskattsskyld starfsemi.

Í bréfi yðar segir m.a.:

“Ættfræðiþjónusta þessi felst í því að einhver einstaklingur (Vestur-Íslendingur) biður stofnunina um að rekja ættir sínar og uppruna. Stofnunin hefur samband við Háskóla Íslands sem sér um að afla gagna og selur stofnuninni þau. Stofnunin sér síðan um að setja gögnin í neytendapakkningar ef svo má segja, þ.e. koma þeim í aðgengilegt form, ættartré o.fl.”

Að mati ríkisskattstjóra er sú starfsemi sem felst í ættfræðirannsóknum og frumsamningu texta á grundvelli þeirra undanþegin virðisaukaskatti skv. 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (starfsemi rithöfunda og tónskálda við samningu hugverka og sambærileg liststarfsemi). Að áliti ríkisskattstjóra verður ekki talið að sú starfsemi sem hér um ræðir falli undir slíka skilgreiningu þar sem þjónustan er hvorki falin í rannsóknum né frumsamningu texta á grundvelli þeirra heldur virðist umrædd ættfræðiþjónusta frekar falin í skráningu upplýsinga á mjög formfastan hátt og án þess að samfara því sé frumsamning á texta. Með vísan til framanritaðs og þess að önnur undanþáguákvæði virðisaukaskattslaga taka ekki til framangreindrar þjónustu ber að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu eða afhendingu á henni.

Í bréfi yðar er einnig spurt að því hver innskattsfrádráttur af byggingaframkvæmdum sé ef um blandaða starfsemi er að ræða og fylgja teikningar af húsnæðinu með bréfinu. Til svars þessu þá má telja virðisaukaskatt vegna endurbóta, viðgerða og viðhalds umrædds húsnæðis til innskatts að því leyti sem framkvæmdir varða beinlínis þann hluta húsnæðisins sem notaður verður fyrir skattskyldan rekstur aðila. Skilyrði er að seljandi vinnu eða þjónustu taki fram á sölureikningi sínum við hvaða hluta húsnæðis hafi verið unnið. Varði hins vegar framkvæmdir við endurbætur, viðgerðir og viðhald ekki beinlínis ákveðinn hluta húsnæðis, t.d. viðhald utanhúss eða við sameiginlegt lagnakerfi, má skattaðili miða útreikning innskatts við það hlutfall sem flatarmál þess hluta húsnæðis sem notað er vegna skattskyldrar starfsemi hans er af heildarflatarmáli húsnæðisins, sbr. 3. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

Í bréfi sínu fer fyrirspyrjandi þess á leit við ríkisskattstjóra að reikna út hver innskattsfrádráttur hans verður af byggingarframkvæmdunum. Ekki er hægt að fallast á þessa beiðni þar sem hvorki kemur fram í bréfi yðar hvaða önnur þjónusta eða vara verður seld né til hverra nota hvert rými verður, t.d. hvort salur verður leigður út til skamms tíma í senn sem er virðisaukaskattsskyld þjónusta en ekki er ljóst hvort umræddur salur verður notaður til einhverrar annarrar starfsemi eða ekki.

Tekið skal fram í þessu sambandi að ef umræddur salur verður til nota fyrir starfsemi sem er undanþegin tekjuskatti skv. 4. gr. laga 75/1981, þar sem ekki er atvinnustarfsemi að ræða þá er ekki heimilt að telja neinn virðisaukaskatt til innskatts af byggingarframkvæmdum, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 192/1993.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir.