Dagsetning Tilvísun
11. júní 1990 94/90
Virðisaukaskattur af arkitektaþjónustu.
Vísað er til erindis yðar, dags. 28. nóvember 1989, til fjármálaráðuneytisins þar sem fram koma sjónarmið félagsins um virðisaukaskatt af arkitektaþjónustu.
Af þessu tilefni skal tekið fram að öll vinna og þjónusta, hverju nafni sem nefnist, er virðisaukaskattsskyld, nema hún sé sérstaklega undanþegin. Að áliti ríkisskattstjóra tekur ekkert undanþáguákvæði laga um virðisaukaskatt til þjónustu arkitekta.
Þess skal sérstaklega getið að í undanþáguákvæði 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. laganna felst m.a. að framsal listamanna á birtingarrétti eða notkunarrétti eigin verka er undanþegið virðisaukaskatti. Þetta ákvæði verður þó að skýra í samhengi við 2. tölul. 4. gr. laganna. Þannig nær undanþágan aðeins til framsals birtingarréttar o.s.frv. að listaverkum sem falla í þau tollskrárnúmer sem tilgreind eru í 2. tölul. 4. gr. Uppdrættir til notkunar í húsagerð o.fl. falla í tollskrárnúmer 4906.0000.
Samkvæmt framansögðu ber arkitektum að innheimta og skila
– virðisaukaskatti af heildarendurgjaldi fyrir veitta arkitektaþjónustu, þ.m.t. af þóknun fyrir rétt til að nota teikningar, verklýsingar og aðrar forsagnir um mannvirkjagerð við framkvæmdir.
Ekki þykir ástæða til að fjalla sérstaklega um önnur atriði sem fram koma í bréfi félagsins. Bent skal á að almennar leiðbeiningar um virðisaukaskatt er að finna í leiðbeiningariti ríkisskattstjóra, útgefnu í desember 1989 (RSK 11.15), og í mars sl. gaf embættið út sérstakt leiðbeiningarit (RSK 11.16) um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.