Dagsetning                       Tilvísun
12. sept. 1991                             345/91

 

Virðisaukaskattur af auglýsingaþjónustu  fyrir erlendan aðila.

Með bréfi yðar, dags. 26. janúar 1990, er óskað eftir áliti ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts þegar auglýsingastofa dreifir auglýsingum fyrir erlendan aðila í fjölmiðla hér á landi. Spurt er um undanþágu frá virðisaukaskatti:

  1. Ef auglýsingastofan krefur erlenda aðilann um greiðslu beint.
  1. Ef auglýsingastofan krefur umboðsmann erlenda aðilans um greiðslu, sem síðan krefur erlenda aðilann um greiðslu.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

Um 1. lið.

Sala auglýsingaþjónustu til aðila, sem hvorki hefur búsetu né starfsstöð hér á landi, er undanþegin skattskyldri veltu, enda gæti kaupandi, ef starfsemi hans væri skráningarskyld hér á landi samkvæmt lögum um virðisaukaskatt, talið virðisaukaskatt vegna kaupa þjónustunnar til innskatts, sbr. 15. og 16. gr. sömu laga. Sjá í þessu sambandi b-lið l. mgr. 1. gr., sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 194/1990, um virðisaukaskatt af þjónustu fyrir erlenda aðila og af aðkeyptri þjónustu erlendis frá.

Til sönnunar því að skilyrði þetta eigi við um kaupanda skal seljandi, sbr. 2. mgr. 1. gr. sömu reglugerðar, krefja hann um vottorð frá bærum yfirvöldum í heimalandi hans þar sem fram kemur hvers konar atvinnurekstur hann hefur með höndum. Vottorð þetta gildir í eitt ár frá útgáfudegi og skal seljandi varðveita það eins og önnur bókhaldsgögn.

Um 2. lið.

Hafi umboðsmaður skattskylda starfsemi með höndum hér á landi er hann skráningarskyldur skv. 5. gr. laga um virðisaukaskatt. Tekið skal fram að hvers konar auglýsinga- og kynningarþjónusta er virðisaukaskattsskyld.

Í þessu tilfelli selur auglýsingastofan þjónustu sína með virðisaukaskatti til umboðsmanns sem gæti, ef hann er skráningarskyldur samkvæmt framansögðu, dregið skattinn frá sem innskatt að svo miklu leyti sem heimilt er, sbr. 16. gr. laga um virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.

 

Hjál.. Reglug. nr. 194/1990.