Dagsetning                       Tilvísun
8. nóvember 1993                            569/93

 

Virðisaukaskattur af bifreiðageymslu

Vísað er til bréfs yðar, dags. 20. september 1993, þar sem óskað er eftir áliti ríkisskattstjóra á innheimtu virðisaukaskatts af rekstri bifreiðastæða innan- og utan-húss.

Í bréfi yðar kemur fram, að fyrirtækið hyggst reka bifreiðastæðahús í tengslum við K. Viðskiptavinir muni geyma bifreiðar í húsinu á meðan þeir dveljast erlendis. Einnig er spurt hvort innheimta eigi virðisaukaskatt fyrir slík bifreiðastæði utanhúss.

Samkvæmt 2. ml. 8. tl. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, er leiga bifreiðastæða undanþegin virðisaukaskatti. Undanþága þessi á einungis við um skammtímabifreiðastæði, þar sem gert er ráð fyrir að bifreið standi almennt ekki lengur en eina dagsstund, enda voru bifreiðastæði við stöðumæla einkum höfð í huga við setningu þessa lagaákvæðis. Undanþágan tekur þannig ekki til þess þegar viðskipti fela í sér þjónustu af öðru tagi, t.d. sölu á aðstöðu til viðgerða eða geymslu á bifreið. Samkvæmt framanrituðu ber yður að innheimta 24,5% virðisauka-skatt af þjónustu yðar, sbr. 2. mgr. 2. gr. virðisaukaskattslaga.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson