Dagsetning                       Tilvísun
6. sept. 1994                            640/94

 

Virðisaukaskattur af bíl til niðurrifs

Vísað er til bréfs yðar dags. 6. júlí 1994 þar sem spurst er fyrir um, hvort innskatta megi bíl sem fyrirtækið keypti af viðskiptavini sínum vegna galla sem komu fram í bílnum innan ábyrgðartíma. Í bréfinu segir einnig: „Ljóst er að hluta úr bílnum er hægt að nýta og selja sem varahluti enda munum við innheimta virðisaukaskatt af þeim hlutum eins og öðrum varahlutum sem við seljum.“

9. gr. A í reglugerð nr. 192/l993, um innskatt, með síðari breytingum segir:

„Aðilar sem kaupa notuð ökutæki til niðurrifs í atvinnuskyni geta reiknað sér innskatt sem nemur 19.68 % af kaupverði ökutækis þegar seljanda ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af sölunni. Innkaupin skulu færð á sérstakan gjaldareikning í bókhaldi.

Í bókhaldi eða fylgigögnum þess skulu koma fram eftirfarandi upplýsingar:

  1. Fast númer ökutækis, sbr. reglugerð um skráningu ökutækja, nr. 523/1988, með síðari breytingum.
  2. Dagsetning viðskiptanna.
  3. Lýsing á hinu keypta.
  4. Kaupverð.
  5. Nafn, heimilisfang og kennitala seljanda.

Sölureikning, kaupsamning og afsal skal varðveita sem og önnur bókhaldsgögn sem varða viðskiptin.“

Það er mat ríkisskattstjóra að viðskipti þau er þér lýstuð í bréfi yðar falli undir 9. gr. A í reglugerð um innskatt. Ákvæðið var sett með reglugerð nr. 306/1994, um breyting á reglugerð um innskatt nr. 192/1993, með síðari breytingum og tók gildi þann 6. júní 1994.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir