Dagsetning Tilvísun
21. mars 1991 257/91
Virðisaukaskattur af björgunarbátum.
Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. febrúar sl., þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á því hvort sérhæfðir björgunarsveitarbátar, yfir 6 metrar að lengd, sem fluttir eru inn af björgunar- eða hjálparsveitum og eingöngu eru notaðir til björgunarstarfa, falli undir 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt.
Samkvæmt 6. tölul. l. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt er sala og útleiga skipa, þó ekki skemmtibáta, undanþegin skattskyldri veltu. Við innflutning skipa sem falla undir ákvæðið skal ekki greiða virðisaukaskatt, sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.
Ríkisskattstjóri hefur skýrt undanþáguákvæði þetta þannig að það taki til báta sem eru sex metrar að lengd eða stærri, enda verði þeir ekki taldir skemmtibátar. Björgunarbátar verða að áliti ríkisskattstjóra ekki taldir skemmtibátar í þessu sambandi. Samkvæmt þessari niðurstöðu leggst virðisaukaskattur hvorki á sölu innanlands né innflutning björgunarbáta yfir þessari stærð.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Ólafur Ólafsson.