Dagsetning Tilvísun
30. júlí 1993 511/93
Virðisaukaskattur af bókum og öðrum ritum
Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. júlí 1993, þar sem óskað er eftir upplýsingum ríkisskattstjóra um skattlagningu bóka og annarra rita.
Í bréfi yðar kemur fram, að Skipulag ríkisins gefur út eða hefur umsjón með útgáfu ýmissa rita varðandi skipulags- og byggingarmál. Útgefin rit eru:
- Lög og reglugerðir um skipulags- og byggingarmál (ásamt viðaukum).
- Greinargerðir með skipulagi eins sveitarfélags (aðalskipulag).
- Greinargerðir með skipulagi tveggja eða fleiri sveitarfélaga (svæðisskipulag).
- Leiðbeiningarit um skipulags- og byggingarmál.
- Skýrslur tengdar skipulags- og byggingarmálum (t.d. um flóðahættu).
Greinargerðir með skipulagi, leiðbeiningarit og skýrslur eru flest unnin af ráðgjöfum (arkitektar, landfræðingar eða verkfræðingar) með samráði við Skipulag ríkisins. Undanfarin ár hafa ritin verið ókeypis, en á síðasta ári var tekin upp sala á lögum og reglugerðum um skipulags- og byggingarmál. Ennfremur hafa leiðbeiningarit verið seld í litlum mæli. Ritin hafa verið seld á naumlega kostnaðarverði.
Spurt er hvort áðurnefnd rit séu virðisaukaskattsskyld, og ef svo er, hvaða skatt-prósentu beri að innheimta.
Til svars bréfi yðar skal tekið fram að útgáfa bóka, tímarita, dagblaða, landsmálablaða og annarra rita er skráningarskyld starfsemi ef útgáfan er talin vera í atvinnuskyni. Þó er starfsemi ekki skráningarskyld ef samanlagðar tekjur útgefanda af sölu skattskyldrar vöru og þjónustu, þ.m.t. tekjur af auglýsingum og sölu ritsins, eru lægri en 185.200 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1993). Það fer svo eftir eðli prentvarnings hvort hann ber 14% eða 24,5% virðisaukaskatt.
Við mat á því hvenær útgáfa telst vera í atvinnuskyni er aðallega miðað við það hvort tilgangur starfseminnar er að skila hagnaði af rekstri eða ekki. Útgáfa telst ekki vera í atvinnuskyni ef samanlagðar auglýsingatekjur og tekjur af sölu eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til útgáfunnar, þ.m.t. prentkostnaður. Gefi aðili út fleiri en eitt rit er miðað við heildarafkomu fyrirtækisins.
Opinberir aðilar, þ.e. ríki og sveitarfélög, og stofnanir og fyrirtæki þeirra, eru skráningarskyldir að því leyti sem þeir selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Ríkisskattstjóri lítur svo á að sala opinberra aðila á ritum, sem þeir gefa út, sé aðeins skráningarskyld ef þessar vörur eru seldar með hagnaði. Skráningarskylda er ekki talin vera fyrir hendi ef tekjur af þessari starfsemi eru alltaf eða nær alltaf lægri en kostnaður við aðföng sem keypt eru með virðisaukaskatti til starfseminnar.
Ef útgáfustarfsemi yðar er í samkeppni við atvinnufyrirtæki og tilgangur starfsemi er að skila hagnaði, þá ber að hafa eftirfarandi viðmiðunarreglur í huga:
Samkvæmt 6. tl. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, ber sala bóka á íslenskri tungu, jafnt frumsaminna sem þýddra, 14% virðisaukaskatt.
Hugtakið „tímarit“ í skilningi 5. tl. 2. mgr. 14. gr. virðisaukaskattslaga, er hvers konar útgáfa rita, að jafnaði með efni eftir fleiri en einn höfund, önnur en útgáfa dagblaða og landsmála- og héraðsfréttablaða, sem uppfyllir eftirtalin skilyrði:
a. Kemur út reglulega og a.m.k. tvisvar á ári. Ríkisskattstjóri getur þó í einstökum tilvikum samþykkt frávik frá þessu skilyrði.
b. Útgáfan er liður í ótímabundinni röð, þ.e. gert er ráð fyrir útgáfu um ófyrirsjáanlega framtíð.
c. Einstök hefti bera sama heiti og eru númeruð.
d. Útgáfan er seld á fyrirfram ákveðnu verði eða dreift til félagsmanna gegn greiðslu félagsgjalds.
Eftirtalinn prentvarningur er hvorki talinn vera tímarit eða bók í skilningi 14. gr. virðisaukaskattslaga og skulu þeir sem í atvinnuskyni selja eða afhenda slíka vöru innheimta og skila 24,5% virðisaukaskatti af andvirði hennar:
a. Rit til útfyllingar, innsetningar, límingar, heftunar eða til að rífa af eða úr. Má nefna sem dæmi eyðublöð, litabækur, stílabækur og reiknings-hefti.
b. Smáprent, svo sem auglýsinga- og kynningarbæklingar, fréttabréf, dreifibréf og aðrir slíkir bæklingar.
c. Leikskrár og sýningarskrár.
d. Almanök, dagbækur og önnur regluleg útgáfa rita sem hafa að geyma dagatöl, nema þegar dagatal er minni hluti víðtækrar handbókar en þá er um 14% virðisaukaskatt að ræða.
e. Uppdrættir og kort, einnig í bókarformi. Þó tekur lægri prósentan (14%) til atlasa sem hafa að geyma tematískar upplýsingar auk korta.
f. Rit, sem að meginefni eru skrár eða listar en ekki samfelldur texti, svo sem símaskrár, heimilisfangaskrár, fyrirtækjaskrár, vinningaskrár, verð-skrár, leiðabækur um áætlunarferðir, skrár yfir sýningarhluti, fasteignir, rekstrarfjármuni, vörubirgðir og annað lausafé.
g. Námsvísar og kennsluáætlanir skóla.
h. Sérútgáfur laga og reglna, svo og staðlar, leiðbeiningar og tilkynningar frá opinberum aðilum. Lægri prósentan tekur þó til samstæðna tveggja eða fleiri slíkra rita sem bundin eru saman í eitt hefti.
Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra virðist útgáfustarfsemi yðar ekki vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki, að undanskilinni útgáfu samstæðna laga og reglugerða um skipulags- og byggingarmál. Laga- og reglugerðaútgáfan ber því 14% virðisaukaskatt ef hún er gefin út í atvinnuskyni, en önnur útgáfustarfsemi stofnunarinnar er án virðisaukaskatts, enda ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki og ekki í atvinnuskyni gerð.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Bjarnfreður Ólafsson.