Dagsetning Tilvísun
11. desember 1996 769/96
Virðisaukaskattur af burðargjöldum
Vísað er til símbréfs yðar, dags. 16. september 1996, þar sem spurst er fyrir um hvort burðargjald og póstkröfugjald frá Pósti og síma sé virðisaukaskattsskylt. Með bréfinu fylgdi ljósrit af reikningi frá Pósti og síma.
Póstþjónusta önnur en bögglasendingar er undanþegin virðisaukaskatti skv. 7. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Bögglasendingar teljast til vöruflutninga.
Í póstkröfuviðskiptum greiðir seljandi vöru póstkröfukostnað og fær reikning fyrir honum á pósthúsi. Sá virðisaukaskattur sem kemur fram á reikningi pósthússins er innskattur seljanda vörunnar.
Ef seljandi krefur kaupanda sérstaklega um póstkröfukostnað og annan sendingarkostnað þá ber honum að innheimta virðisaukaskatt af þeim kostnaði, þ.e. hann er hluti skattverðs, sbr. 2. tölul. 2. mgr. 7. gr. virðisaukaskattslaga.
Ljósritið sem þér senduð með bréfi yðar er ekki reikningur frá Pósti og síma, heldur kvittun fyrir innborgun yðar. Það er álit ríkisskattstjóra að smásöluverslun, sem ekki gefur út reikning vegna sölu sinnar, sé rétt að telja vöru, sem seld er gegn póstkröfu, afhenta í skilningi 1. mgr. 13. gr. virðisaukaskattslaganna, þegar kaupandi leysir út vöruna úr pósthúsi. Innskattur kaupanda er 19,68% af heildar-verði kröfunnar. Gefi seljandi út reikning þegar um kaup er samið (pöntun gerð) eða við afhendingu til pósthúss gildir ákvæði 2. mgr. 13. gr. og miðast tekjuskráning þá við útgáfudag reikningsins.
Af framansögðu þykir ljóst að ef kaupanda er heimilt að telja virðisaukaskatt af kaupunum til innskatts, þá beri honum að krefjast reiknings af seljanda þar sem koma á fram kostnaður vegna flutninga ásamt virðisaukaskatti.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir