Dagsetning                       Tilvísun
4. ágúst 1993                             512/93

 

Virðisaukaskattur af byggingarstarfsemi

Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. júlí 1993, þar sem farið er fram á upplýsingar ríkisskattstjóra varðandi virðisaukaskattsuppgjör gjaldanda vegna „sölu“ á tveimur raðhúsum.

Í bréfi yðar kemur fram, að gjaldandi hóf byggingu þriggja raðhúsa á árinu 1989, sem hann er þinglýstur eigandi að. Á árinu 1993 „seldi“ gjaldandi tiltekinni húsnæðisnefnd tvö húsanna án virðisaukaskatts. Meðfylgjandi bréfi yðar er verksamningur, sem undirritaður var þann 12. mars 1993.

Þá kemur fram í bréfi yðar, að við „sölu“ á húsunum hefði verið réttast að miða við verkstöðu þeirra og selja þau samkvæmt kaupsamningi og gera síðan verksamning um framhaldið. Þannig var hins vegar ekki að málum staðið vegna mótstöðu kaupenda sem einungis vildu gera verksamning um þessi kaup.

Þann 28. maí s.l. skrifar gjaldandi út reikninga með virðisaukaskatti á húsnæðisnefnd skv. verksamningi, en gjaldandi hefur ekki nýtt sér neinn innskatt af keyptum aðföngum. Þá leggið þér til í bréfi yðar að gjaldandi fái að nýta sér innskatt af kostnaði vegna bygginga húsanna að tveimur þriðju hlutum án tillits til þess hvenær kostnaður féll til, þ.e. litið verði þannig á málin að húsin hafi frá upphafi verið byggð skv. verksamningi þar um.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram, að samkvæmt gögnum úr fasteignabók var afsölum eignanna tveggja til viðkomandi hrepps vegna húsnæðisnefndarinnar þinglýst 2. apríl 1993, en skv. dagsetningu afsala var hreppurinn orðinn eigandi eignanna þann 31. mars 1993 (ekki virðist hafa verið gerður sérstakur kaupsamningur um eignirnar – aðeins verksamningur). Gjaldandi getur því notið innskattsfrádráttar vegna kostnaðar sem til féll frá og með 31. mars 1993 skv. reglum um byggingarstarfsemi á kostnað annarra, en fyrir það tímamark fær hann einungis innskattsfrádrátt skv. reglum um byggingarstarfsemi á eigin kostnað. Meðfylgjandi eru leiðbeiningar um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi (RSK 11.16).

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Bjarnfreður Ólafsson