Dagsetning Tilvísun
24. júní 1997 803/97
Virðisaukaskattur af byggingu atvinnuhúsnæðis til eigin nota
Vísað er til bréfs yðar, dags. 9. apríl sl., þar sem óskað er eftir upplýsingum um meðferð virðisaukaskatts við byggingu iðnaðarhúsnæðis.
Í bréfi yðar kemur fram að byggingarmeistari er að hugleiða að byggja iðnaðarhúsnæði til eigin nota. Í því sambandi eru lagðar fram eftirfarandi spurningar:
- Byggingarmeistari byggir húsnæðið sjálfur.
- Af hvaða kostnaðarliðum reiknast ekki útskattur?
- Af hvaða kostnaðarliðum (samkvæmt reikningum og reiknuðum) er heimilt að færa innskatt?
- Byggingarmeistari byggir grunn og kaupir síðan tilbúnar einingar, sem hann setur upp.
- Óskað er eftir nánari skýringum á 3.tölul. 4. gr. reglugerðar nr. 576/1989.
- Fæst reiknaður útskattur ekki endurgreiddur eins og um íbúðarhúsnæði væri að ræða?
- Þegar byggingarmeistari kaupir einingar, er heimilt að færa innskatt af þeim innkaupum, sbr. 1. mgr. 3. gr.?
- Byggingarmeistari byggir grunn og kaupir síðan iðnaðarhúsnæði uppsett og tilbúið.
- Af hvaða kostnaðarliðum er heimilt að færa innskatt?
- Byggingameistari kaupir iðnaðarhúsnæði uppsett og tilbúið?
- Af hvaða kostnaðarliðum er heimilt að færa innskatt?
Bréfi yðar verður svarað í sömu röð og fyrirspurnir eru lagðar fram. Gert er ráð fyrir því við svar á fyrirspurnum að byggingarmeistari falli undir ákvæði reglugerðar nr. 576/1989, um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi. Samkvæmt framangreindri reglugerð telst sá sem ekki notar vinnuafl launþega við byggingarframkvæmdir ekki byggingaraðili í skilningi reglugerðarinnar nema um sé að ræða störf í iðn- eða sérfræðigrein byggjanda eða sambærilegri starfsemi. Þrátt fyrir framangreint telst aðili byggingaraðili (vegna byggingar til eigin nota) ef hann hefur jafnframt með höndum skattskyldar byggingarframkvæmdir á eigin kostnað til leigu eða sölu eða hann selur öðrum byggingarvinnu í atvinnuskyni.
Svar við 1:
- Það er fyrst og fremst vinna starfsmanna sem skattleggst þegar byggt er til eigin nota. Í sumum tilvikum á einnig að reikna skatt af vinnu byggingaraðilans sjálfs. Efni skattleggst aðeins ef aðili hefur áður fengið innskattsfrádrátt vegna kaupa þess. Annars er litið svo á að efnið komi fullskattað inn í bygginguna. Einnig ber byggingaraðila að reikna virðisaukaskatt af notkun eigin tækja eða sem hann hefur á leigu við byggingarframkvæmdir enda hafi hann þá fengið innskattsfrádrátt vegna kaupanna. Að öðru leyti er vísað til 4. gr. reglugerðar nr. 576/1989.
Hins vegar ber ekki að reikna útskatt af þeim kostnaðarliðum sem byggingaraðila er óheimilt að innskatta skv. 2. mgr. 3. gr. umræddrar reglugerðar, þ.e. kaup á þjónustu verktaka við byggingarframkvæmdir, efni sem ekki sætir neins konar aðvinnslu af hálfu byggingaraðila sjálfs eða starfsmanna hans og aðrar vörur og skattskylda þjónustu sem aðili kaupir vegna byggingarstarfseminnar.
- Almenna reglan er sú að byggingaraðili nýtur innskattsfrádráttar af kaupum aðfanga vegna þeirrar vöru eða þjónustu sem honum ber að reikna af útskatt. Hann má því telja til innskatts virðisaukaskatt af þeim kostnaði sem síðar myndar stofn til útreiknings á útskatti hans. Í umræddu tilviki nýtur byggingaraðili einskis innskattsfrádráttar af efni sem hann kaupir sérstaklega til byggingarinnar, hvort sem hann, starfsmenn hans eða verktakar vinna úr því. Hann hefur hins vegar frádráttarrétt eftir almennum reglum ef hann framleiðir eða stundar viðskipti með byggingarefni sem hann notar jafnframt í bygginguna. Það teljast viðskipti með byggingarefni í þessu sambandi þegar aðili heldur lager af byggingarefni (þ.m.t. efni keypt í heildsölu) vegna byggingarframkvæmda sinna. Þegar þannig stendur á hefur aðili fengið innskattsfrádrátt vegna vörunnar og því verður að leggja útskatt á hana. Sömu reglur gilda um tæki sem byggingaraðili kaupir eða tekur á leigu til byggingarframkvæmdanna.
Ofangreindar reglur um virðisaukaskatt af byggingarstarfsemi til eigin nota taka bæði til aðila sem hafa engan eða takmarkaðan frádráttarrétt á innskatti og (skráðra) aðila sem hafa fullan frádráttarrétt virðisaukaskatts vegna þess húsnæðis sem þeir nota fyrir atvinnustarfsemi sína. Þess vegna þurfa skráðir aðilar, sem láta starfsmenn sína vinna við atvinnuhúsnæði til notkunar fyrir fyrirtækið, einnig að reikna virðis-aukaskatt eftir þeim reglum sem raktar hafa verið hér að framan og færa upplýsingar um hann í bókhald sitt. Í þessu tilviki ber að færa reiknaðan skatt fyrir hvert uppgjörstímabil á útskattsreikning fyrirtækisins en hafi það fullan frádráttarrétt vegna húsnæðisins má það samtímis telja hann að öllu leyti til innskatts. Einnig má telja til innskatts þann virðisaukaskatt sem kemur fram á reikningum verktaka, svo og virðisaukaskatt af efni sem verktökum er útvegað.
Fyrirtæki sem hafa frádráttarrétt fyrir hluta af starfsemi sinni geta talið reiknaðan virðisaukaskatt af byggingarvinnu starfsmanna sinna, þjónustu verktaka o.fl. til innskatts að hluta í samræmi við ákvæði 7. og 8. gr. reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.
Svar við 2:
- Hvað varðar þetta atriði þá hefur umrætt ákvæði verið túlkað á þann veg að reikna ber virðisaukaskatt (útskatt) af efni sem byggingaraðili og starfsmenn hans nota við framkvæmdirnar ef um er að ræða vörur sem byggingaraðili selur eða framleiðir. Eins og fram hefur komið þá teljast það viðskipti með byggingarefni í þessu sambandi þegar aðili heldur lager af byggingarefni vegna byggingar-framkvæmda sinna. Þegar þannig stendur á hefur aðili fengið innskattsfrádrátt vegna vörunnar og því verður að leggja útskatt á hana. Skattverð skal miðast við almennt gangverð, sbr. 8. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, og auglýsing nr. 8/1994, um reglur um stofn til virðisaukaskatts (skattverð) í byggingar- starfsemi.
- Endurgreiðslureglur vegna virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði gilda einungis um íbúðarhúsnæði.
- Sama svar og við 1. spurningu.
Svar við 3:
- Sama svar og við 1. spurningu.
Svar við 4:
- Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 teljast fasteignir ekki til virðisaukaskattsskyldra vara. Aftur á móti getur kaupandi fasteignar yfirtekið leiðréttingarskyldu seljanda að því leyti sem hann hefur frádráttarrétt vegna eignarinnar, sbr. 15. gr. reglugerðar 192/1993, um innskatt. Til frekari skýringar skal tekið fram að leiðréttingarskylda vegna öflunar fasteigna tekur til innskatts af efni, vinnu, tækjanotkun o.fl. vegna nýbyggingar, endurbyggingar og endurbóta, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 192/1993.
Hvað varðar leiðréttingarskyldu þá skal tekið fram að leiðrétta skal innskatt vegna byggingarframkvæmda verði breyting á forsendum frádráttar á næstu tíu árum talið frá og með þeim mánuði þegar framkvæmd fór fram. Jafnframt skal tekið fram að seljandi fasteignar skal leiðrétta innskatt að því leyti sem frádráttarréttur kaupanda kann að vera minni en seljanda, sbr. 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993. Ávallt skal tilkynna skattstjóra um yfirtöku leiðréttingarskyldu, sbr. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 192/1993.
Hér í lokin eru helstu reglur um innskatt og útskatt í byggingarstarfsemi á eigin kostnað til eigin nota dregnar saman:
Útskattur reiknast af eftirtöldum liðum:
- Fyrst og fremst af eigin vinnu byggingaraðila og starfsmanna hans við hönnun og framkvæmdir.
- Byggingarefni sem byggingaraðili eða starfsmenn hans nota við framkvæmdirnar enda hafi hann fengið innskatt af því, sjá umfjöllun um innskatt.
- Notkun byggingaraðila eða starfsmanna hans á eigin eða leigðum tækjum við framkvæmdirnar enda hafi hann fengið innskatt af þessum aðföngum, sjá umfjöllun um innskatt.
Innskattur er heimill af eftirtöldu:
- Byggingarefni ef hann framleiðir eða stundar viðskipti með byggingarefni sem hann notar jafnframt í bygginguna.
- Kostnaði vegna eigin eða leigðra tækja enda hafi hann með höndum aðra skattskylda starfsemi þar sem tækin eru jafnframt notuð.
Innskattur er ekki heimill af eftirtöldu:
- Byggingarefni sem byggingaraðili kaupir sérstaklega til byggingarinnar sama hver vinnur úr því.
- Tækjum sem byggingaraðili kaupir eða tekur sérstaklega á leigu til byggingar-framkvæmdanna. Sama gildir um rekstur tækjanna.
- Aðkeyptri þjónustu verktaka.
Ef húsnæðið er byggt undir eigin skattskyldan rekstur byggingaraðila þá er honum heimill innskattur eftir almennum reglum, þ.e. ef hann hefur fullan frádráttarrétt þá telst reiknaður útskattur jafnframt innskattur hans og jafnframt heimilt að telja til innskatts þá kostnaðarliði sem taldir eru upp undir liðnum “Innskattur er ekki heimill”.
Beðist er velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á að svara fyrirspurn yðar.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra,
Vala Valtýsdóttir.
Hjálagt: Virðisaukaskattur af byggingarstarfsemi, Leiðbeiningar.