Dagsetning                       Tilvísun
4. feb. 1991                             236/91

 

Virðisaukaskattur af eftirlitsgjöldum og vottorðum ríkisstofnunar.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 8. janúar 1990, þar sem óskað er álits ríkisskattstjóra á meðferð virðisaukaskatts af eftirlitsgjöldum Geislavarna ríkisins og gjöldum fyrir vottorð sem stofnunin gefur út.

Til svars erindinu skal tekið fram að ríki, bæjar- og sveitarfélögum og stofnunum eða fyrirtækjum þeirra er skylt að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum í ríkissjóð, að svo miklu leyti sem þessir aðilar selja vörur eða skattskylda þjónustu í samkeppni við atvinnufyrirtæki, sbr. 4. tölul. l. mgr. 3. gr. laga um virðisaukaskatt.

Geislavarnir ríkisins hafa með höndum lögboðið eftirlit með geislavirkum efnum og geislatækjum, sbr. lög nr. 117/1985, um geislavarnir, og seljendur og eigendur efna og tækja af því tagi sem lögin taka til virðast ekki eiga þess kost að sækja sambærilega þjónustu með sömu réttaráhrifum til atvinnufyrirtækja. Með vísan til þessa telur ríkisskattstjóri að umrædd starfsemi Geislavarna ríkisins sé ekki í samkeppni við atvinnufyrirtæki í skilningi virðisaukaskattslaga. Samkvæmt þeirri niðurstöðu ber yður ekki að innheimta virðisaukaskatt vegna eftirlitsgjalda og vottorða í því sambandi.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.