Dagsetning                       Tilvísun
6. desember 1994                            656/94

 

Virðisaukaskattur af eftirstöðvum fjármögnunarleigusamnings

Vísað er til bréfs yðar, dags. 26. ágúst 1994, þar sem þér óskið eftir áliti ríkisskattstjóra á því, hvernig skyldu aðila til að innheimta virðisaukaskatt af eftirstöðvum fjármögnunarleigusamnings skuli háttað, þegar samningi er sagt upp vegna vanskila leigutaka og leigumun skilað.

Í bréfi yðar segir m.a.:

“Við uppsögn samnings greiðir leigutaki í fyrsta lagi leigugreiðslur. Þessar leigugreiðslur eru með virðisaukaskatti enda hafa reikningar verið gefnir út og sendir leigutaka. Virðisaukaskattsskylda af þessu greiðslum er því óumdeild. Í öðru lagi greiðir leigutaki alla ógjaldfallna leigu út leigutímann. Að mati umbjóðanda míns er réttast að líta á þessar eftirstöðvar sem skaðabætur innan samninga en ekki sem virðisaukaskattsskylt leigugjald. Hér er ekki um að ræða dulbúið söluverð leigumunar því að hann verður áfram í eigu leigusala sem síðan ráðstafar honum á annan hátt. Þá er hér ekki um að ræða sölu á þjónustu þar sem samningssambandi aðila er lokið. Frá þessari upphæð dregst síðan söluverð leigumunar án Vsk.

Spurningin er því:

a) Á L. að innheimta virðisaukaskatt af heildarfjárhæð framtíðarleigu, eða;
b) aðeins af þeirri framtíðarleigu sem eftir stendur þegar söluverð leigumunar hefur verið dregið frá eða;
c) er rétt að líta á þessa framtíðarleigu sem skaðabætur innan samninga og því ekki virðisaukaskattsskylda.”

Til svars fyrirspurnar yðar skal tekið fram að leigusala ber ávallt að innheimta og skila virðisaukaskatti af gjaldfallinni leigugreiðslu, hvort sem hún hefur verið greidd eða verði greidd síðar, enda um að ræða endurgjald fyrir virðisaukaskattsskylda þjónustu sem þegar hefur verið innt af hendi.

Fram kemur í sérákvæðum fjármögnunarleigusamnings þess, sem fylgdi bréfi yðar, ákvæði 2.2. b) að leigutaki skuli greiða leigusala alla ógjaldfallna leigu fyrir það tímabil, sem eftir er af leigutímanum á uppsagnardegi.

Það er álit ríkisskattstjóra, að greiðsla ógjaldfallinnar leigu (framtíðarleigu) vegna samningsrofa skoðist sem skaðabætur innan samninga og beri því ekki að innheimta virðisaukaskatt af slíkri greiðslu enda sé hún ekki vegna afhendingar á skattskyldri þjónustu.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir