Dagsetning Tilvísun
18. maí 1994 630/94
Virðisaukaskattur af fasteignaleigu/gistingu
Vísað er til bréfs yðar, dags. 21. janúar 1994, þar sem spurt er fyrir hönd nemenda við Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi, hvort greiða beri virðisaukaskatt af leigu á húsnæði sem þeir búa í yfir veturinn. Húsnæði þetta er í H og greiða nemendur í upphafi annar fyrir önnina í einu lagi þ.e. nokkra mánuði í senn.
Til svars bréfi yðar skal upplýst að útleiga hótel- og gistiherbergja er skattskyld samkvæmt ákvæðum virðisaukaskattslaga. Með hótel- og gistiherbergjum er átt við herbergi hótela og gistiheimila samkvæmt a- og b- lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 67/1985 um veitinga- og gististaði.
Ekki skiptir máli hvort hótel- og gistiherbergi eru leigð til lengri eða skemmri tíma, útleigan er ávallt virðisaukaskattsskyld samkvæmt 8. tl. 3. mgr., sbr. 2. tl. 2. mgr. 14. gr. laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988 með síðari breytingum.
Hafi aðili að einhverju leyti með höndum sölu á gistingu til skemmri tíma en eins mánaðar þá ber honum að innheimta 14% virðisaukaskatt af allri starfsemi sinni. Hafi aðili hins vegar ekki með höndum neina gistiþjónustu til skemmri tíma en eins mánaðar, þá telst starfsemin til fasteignaleigu og því undanþegin virðisaukaskatti. Rekstraraðili getur ekki á einu rekstrarári bæði selt gistiþjónustu og verið með skattfrjálsa fasteignaleigu nema innan mjög þröngra marka. Rekstraraðili getur haldið leigu til lengri tíma en eins mánaðar utan við virðisaukaskatt, ef hann hefur ekki með höndum sölu á skattskyldri gistiþjónustu a.m.k. sjö mánuði á ári. Sjá kafla 5.1, 5.3 og 5.3.4. í meðfylgjandi bréfi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Vala Valtýsdóttir
Hjálagt: Bréf ríkisskattstjóra, dags. 27. desember 1993, um fasteignaleigu og gistiþjónustu.