Dagsetning                       Tilvísun
3. febrúar 1995                            662/95

 

Virðisaukaskattur af ferðatékkum.

Með vísan til bréfs yðar dags. 4. nóvember 1994, sem skattstjórinn í Reykjavík framsendi með bréfi dags. 22. nóvember s.l., þar sem farið er fram á að skattyfirvöld staðfesti að ferðatékkasendingar séu óháðar bæði tolli og virðisaukaskatti á sama hátt og erlendar peningasendingar.

Í bréfi yðar kemur fram að ferðatékkar eru sendir frá útgáfuaðilum þeirra erlendis til bankans og liggur hann með þá sem lager án verðgildis, þar til þeir eru seldir viðskiptamanni, sem fer með þá erlendis í stað þess að kaupa erlenda seðla.

Ferðatékkar eru gjarnan sendir í verðpósti til að sendingar fái öruggustu póstmeðferð.

Þegar viðskiptamaður kaupir ferðatékka eru greiðslur sendar fyrir upphæð tékkans til söluaðila erlendis og þar með er ferðatékkinn orðinn að gjaldgengum greiðslumiðli.

Í bréfi yðar kemur ennfremur fram:

“ Við getum ekki fallist að ferðatékkar séu vara, sem flutt er inn og notuð hérlendis. Ferðatékkar sem keyptir eru hjá bönkum hér eru nær undantekningalaust notaðir erlendis. Tilgangur með notkun ferðatékka er öryggismál fyrir viðskiptamanninn (ef þeir glata ferðatékkum er hægt að bæta tjónið en glataðir seðlar verða ekki bættir). Auk þess vilja bankarnir gjarnan lækka hjá sér birgðir erlendra seðla og bjóða því viðskiptamönnum gjarnan ferðatékka í staðinn fyrir seðla. Það gefur auga leið að bankar láta viðskiptamanninn ekki greiða virðisaukaskatt af ferðatékkum.“

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt eru hlutabréf, skuldabréf, eyðublöð og aðrir slíkir hlutir vörur þegar þeir eru látnir í té sem prentvarningur. Peningaseðlar, mynt og frímerki eru vörur þegar þeir hlutir eru seldir sem söfnunargripir. Sala og innflutningur á peningaseðlum, ferðatékkum, tékkaheftum, skuldabréfum o. s. frv. er virðisaukaskattsskyld, þegar um sölu á prentvarningi er að ræða.

Tekið skal fram að innflutningur X á peningum er m.a. virðisaukaskattsskyldur. Framleiðslukostnaður þeirra, þ.e. prentkostnaður, efni o.s.frv. telst tollverð þeirra, sbr. 8. og 9. gr. tollalaga nr. 50/1987.

Samkvæmt framansögðu eru ferðatékkar vara ( prentvara), sem flutt er inn og seld hér á landi. Umræddur innflutning hefur ekki ígildi peningaseðla eða myntar heldur er um að ræða innflutning á prentvöru og ber því að greiða bæði virðisaukaskatt og toll af innflutningnum.

Við sölu ferðatékka til viðskiptamanna innheimtist aftur á móti ekki virðisaukaskattur, ef ekki er hagnaður af sölu þeirra.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra

Vala Valtýsdóttir