Dagsetning                       Tilvísun
28. maí 1990                              97/90

 

Virðisaukaskattur af ferðaþjónustu bænda.

Vísað er til bréfa yðar, dags. 12. og 28. okt. 1989 og 7. mars 1990, þar sem óskað er eftir því að fá upplýsingar um hvort og hvaða þjónusta svonefndra ferðaþjónustubænda sé virðisaukaskattsskyld og hvernig reikna skuli út virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem skattskyld teljist. Sérstaklega er spurt um útreikning virðisaukaskatts af matsölu þegar vörukaup vegna sölunnar eru ekki aðgreind frá vörukaupum til heimilishalds.

Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:

I.

  1. Fasteignaleiga er undanþegin virðisaukaskatti, sbr. 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt. Undanþáguákvæði þetta tekur til;

– sölu gistingar i herbergjum,

– sölu gistingar í sumarhúsum,

– leigu tjaldstæða,

– sölu veiðileyfa.

  1. Öll veitingasala í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld.
  1. Leiga lausafjár í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld starfsemi, þ.m.t. hestaleiga. Í     þessu sambandi skal þó tekið fram að svonefndar hestaferðir eru að áliti ríkisskattstjóra undanþegnar virðisaukaskatti skv.6. tölul.3. mgr.2. gr.laga um virðisaukaskatt (fólksflutningar). Með „hestaferð“ er átt við skipulagða hópferð á hestum undir leiðsögn fararstjóra.
  1. Leiðsögn sem veitt er í atvinnuskyni er virðisaukaskattsskyld þjónusta.

 II.

Þegar um skattskylda sölu er að ræða (sbr. liði I-2 til I-4) ber að innheimta virðisaukaskatt af heildarendurgjaldi fyrir selda vöru og þjónustu, en við skil skattsins má draga frá allan þann virðisaukaskatt (innskatt) sem fellur á kaup bónda á skattskyldum vörum og þjónustu til nota við þá starfsemi.

Þannig er heimilt að telja að fullu til innskatts virðisaukaskatt af vörum og þjónustu sem eingöngu er keypt til nota við hinn skattskylda hluta starfseminnar. Að sama skapi er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum sem eingöngu varða hinn skattfrjálsa hluta starfseminnar. Minnt skal á að undanþágur skv. lið I-1 hér að framan (fasteignaleiga) og I-4 (hestaferðir) ná aðeins til endurgjalds vegna þeirrar þjónustu sem þar um ræðir, en ekki til virðisaukaskatts (innskatts) af aðföngum til starfseminnar.

Af framansögðu leiðir að þeir sem bæði selja skattskylda vöru eða þjónustu og þjónustu sem undanþegin er virðisaukaskatti – selja t.d. bæði gistingu og fæði – verða að skipta þeim virðisaukaskatti sem fellur á innkaup í innskatt {frádráttarbæran virðisaukaskatt) og virðisaukaskatt sem ekki er frádráttarbær.

 III.

Almennt er fjallað um útreikning útskatts og frádrátt innskatts í leiðbeiningariti sem ríkisskattstjóri gaf út í desember sl. Er þar m.a. fjallað um frádrátt virðisaukaskatts að hluta þegar innkaup varða annars vegar sölu skattaðila á skattskyldum vörum og þjónustu og hins vegar eigin not eiganda eða önnur not sem ekki varða skattskyldan rekstur.

Meðal annars reynir á ofangreindar reglur þegar borgandi gestir borða með heimilisfólki. Ríkisskattstjóri fellst á að við frádrátt virðisaukaskatts í þessum tilvikum verði miðað við að hlutur aðfanga í hverri máltíð nemi 40% af útsöluverði án virðisaukaskatts.

Með aðföngum er hér átt við keypt hráefni til matargerðar að viðbættum ýmsum rekstrarvörum í eldhúsi, svo sem uppþvottalegi, gúmmíhönskum, uppþvottaburstum og uppþvottagrind, svo og öðrum kostnaði við matargerð, svo sem orku og húsnæðiskostnaði.

Dæmi um útreikning:

Í eftirfarandi dæmi er miðað við að hver máltíð sé seld á 1.245 kr. með virðisaukaskatti. Þá er miðað við að 20 máltíðir séu seldar á tímabilinu.

Virðisaukaskattsskyld velta:

20 x 1.245 kr. – 24.900 kr. (með vsk.)

24.900 kr. x 80,32% = 20.000 kr. (án vsk.)

Útskattur:

24.900 x 19,68% = 4.900 kr.

Innskattur:

20.000 kr. x 40% = 8.000 kr. {aðföng án vsk.}

8.000 kr. x 24,5% = 1.960 kr. (innskattur af aðföngum}

Skil:

4.900 kr. – 1.960 kr. – 2.940 kr.

IV.

Ferðaþjónustubændur eru ekki skyldir til að skrá sölu sína í sjóðvél nema þeir hafi með höndum veitingastarfsemi, þ.e. sölu veitinga sem ekki tengist gistingu. Þeir skulu hins vegar gefa út sölureikning við sérhverja sölu á virðisaukaskattsskyldri vöru eða þjónustu. Um tekjuskráningu sölu sem undanþegin er virðisaukaskatti fer samkvæmt lögum og reglugerð um bókhald.

Samkvæmt lögum um virðisaukaskatt er óheimilt að færa á sama sölureikning bæði skattskylda sölu og undanþegna. Að áliti ríkisskattstjóra má – m.a. til að koma í veg fyrir óhagræði sem hlýst af því að innheimta tvo reikninga hjá gesti – nota reikning fyrir skattskyldri sölu sem undirgagn aðalsölureiknings, sem þá er jafnframt reikningsyfirlit.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.