Dagsetning                       Tilvísun
25. janúar 1994                            610/94

 

Virðisaukaskattur af fiski

Vísað er til bréfs yðar, dags. 13. janúar 1994, þar sem óskað er upplýsinga varðandi virðisaukaskatt af fiski sem fiskvinnslufyrirtæki kaupa af útgerðum og hver virðisaukaskattsprósenta er á slíkum fiski. Þá er sérstaklega spurt um viðskipti með þær tegundir sem fara ýmist til manneldisvinnslu eða í mjölvinnslu, sbr. síld og loðnu og hvernig fara skuli með síld sem er bæði fryst til manneldis og til beitu.

Til svars bréfi yðar skal tekið fram að með lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, sem gildi tóku þann l. janúar 1994, varð sú breyting á 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt (en 2. mgr. 14. gr. fjallar um vöru og þjónustu sem ber 14% virðisaukaskatt), að við bættist nýr töluliður (8. töluliður) er hljóðar svo: Sala á matvörum og öðrum vörum til manneldis samkvæmt nánari afmörkun í reglugerð, þó ekki sala á sælgæti og drykkjarvörum og fleiri vörum sem falla undir gjaldflokk D í lögum nr. 97/1987, um vörugjald, né sala á áfengum drykkjum og ógerilsneyddri mjólk. Sala veitingahúsa, mötuneyta og annarra hliðstæðra aðila á tilreiddum mat og þjónustu er þó skattskyld skv I. mgr. þessarar greinar (í 1. mgr. 14. gr. kemur fram meginreglan um 24,5% virðisaukaskatt).

Í 2. gr. reglugerðar nr. 554/1993, um virðisaukaskattskylda sölu á vörum til manneldis o.fl., eru taldar upp vörur sem bera 14% virðisaukaskatt og er í upptalningunni miðað við tollskrárnúmer. Vörur í tollskrárnúmerum frá 0302.1101 til 0307.9920 sem eru fiskur, krabbadýr, lindýr og aðrir vatna- og sjávarhryggleysingjar og vörur í tollskrárnúmerum 0511.9111-0511.9129 eru meðal þeirra vörutegunda sem taldar eru upp í 2. gr. reglugerðarinnar. Vörur í tollskrárnúmerum 0511.9111-0511.9129 eru m.a. nýr eða ísvarinn fiskur til bræðslu, beitusíld, loðna til beitu og fleiri vörur úr dýraríkinu sem teljast óhæfar til manneldis. Þrátt fyrir það að vörur úr síðastnefndum tollskrárnúmerum teljist ekki vera til manneldis þá eiga þær samkvæmt reglugerð 554/1993 að bera 14% virðisaukaskatt. Af því má ljóst vera að fiskur, hverju nafni sem hann nefnist, hvað sem á að nota hann í og hvort sem hann er keyptur á fiskmarkaði, af útgerðum eða einhverjum öðrum, ber 14% virðisaukaskatt.

Vörur sem búið er að vinna úr fiski og eru eftir þá vinnslu óhæfar eða ekki ætlaðar til manneldis eins og t.d. loðnumjöl til fóðurs bera hins vegar 24,5% virðisaukaskatt þrátt fyrir að hráefnið til framleiðslunnar hafi á sínum tíma borið 14% virðisaukaskatt.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Vala Valtýsdóttir