Dagsetning Tilvísun
28. maí 1990 90/90
Virðisaukaskattur af fjármögnunarleigusamningum.
Vísað er til erindis yðar, dags. 19. janúar sl., þar sem leitað er álits ríkisskattstjóra á því hvort undanþáguákvæði 6. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um virðisaukaskatt taki til greiðslna samkvæmt fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusamningum.
Af þessu tilefni skal tekið fram að í tilvitnuðu lagaákvæði er kveðið á um að sala og útleiga skipa og loftfara sé undanþegin skattskyldri veltu. Ákvæðið tekur þó ekki til skemmtibáta og einkaloftfara.
Að áliti ríkisskattstjóra falla leigugreiðslur samkvæmt fjármögnunarleigusamningum undir ákvæðið.
Virðisaukaskattur leggst ekki á afborganir og vexti kaupleigusamninga, sbr. bréf ríkisskattstjóra til yðar, dags. 23. nóv. 1989. Hins vegar ber að telja heildarandvirði vöru eða verðmætis, sem seld er á kaupleigu, til skattskyldrar veltu eignarleigufyrirtækis við afhendingu þess til „leigutaka“ eftir almennum reglum virðisaukaskattslaga. Þó telst afhending skips eða loftfars til nota við atvinnurekstur ekki til skattskyldrar veltu í þessu sambandi.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.