Dagsetning                       Tilvísun
22. júní 1992                            410/92

 

Virðisaukaskattur af fjáröflunarblaði.

Vísað er til bréfs yðar, dags. 22. maí sl., varðandi virðisaukaskatt af afmælisriti deildarinnar.

Í erindi yðar kemur fram að um sé að ræða sérstakt afmælisrit deildarinnar sem dreift verður í hús án endurgjalds. Fjármögnun ritsins verður með þeim hætti að fyrirtækjum og öðrum verður gefinn kostur á að auglýsa í blaðinu til að hafa upp í kostnað af útgáfu.

Til svars erindinu vísast til hjálagðra leiðbeininga ríkisskattstjóra um virðisaukaskatt af útgáfustarfsemi. Þar kemur fram (kafli 2.3, b-Iiður) að útgáfa félagasamtaka á auglýsingablöðum sem þau gefa út í fjáröflunarskyni sé skráningarskyld starfsemi, enda séu tekjur hærri en kostnaður við útgáfu og tekjur nemi a.m.k.183.000 kr. á ári (miðað við byggingarvísitölu 1. janúar 1992).

Ef um er að ræða skráningarskylda starfsemi samkvæmt framansögðu ber yður að innheimta og skila virðisaukaskatti af sölu auglýsinga, þ.m.t. styrktarlínum, í umrætt blað. Jafnframt fæst endurgreiddur (frádreginn) sá virðisaukaskattur sem deildin greiðir vegna prentunar og annars beins útgáfukostnaðar við blaðið.

 

Virðingarfyllst,

f.h. ríkisskattstjóra,

Ólafur Ólafsson.