Dagsetning Tilvísun
14. apríl 1990 51/90
Virðisaukaskattur af flutningastarfsemi.
Vísað er til bréfa yðar, dags. l. nóv. og 6. des. 1989, þar sem leitað er eftir túlkun ríkisskattstjóra á ýmsum ákvæðum laga um virðisaukaskatt.
Til svars erindinu skal eftirfarandi tekið fram:
- Vörugjöld. Starfsemi hafnasjóða er ekki skattskyld til virðisaukaskatts, sbr. 2. mgr. 2. gr. reglug. nr. 561/1989. Þar af leiðir að hafnarsjóðir innheimta ekki virðisaukaskatt af gjöldum fyrir þjónustu hafnar, þ.m.t. vörugjöldum sem innheimt eru af vörum sem fluttar eru um höfn. Skilja verður hafnalög og gjaldskrá fyrir íslenskar hafnir nr. 93/1989 þannig að vörugjöld séu greidd af eiganda vöru – sendanda eða móttakanda – en útgerðum og umboðsmönnum er gert að innheimta þau og standa skil á þeim til viðkomandi hafnarsjóðs. Vörugjöld til hafnarsjóða standa ekki í þeim tengslum við sölu skipafélags á flutningaþjónustu að þau geti talist vera hluti skattverðs í skilningi 7. gr. laga nr. 50/1988. Af þessu leiðir að skipafélagi ber ekki að innheimta virðisaukaskatt af þeim.
- Framhaldsflutningur. Undanþága 2. tölul. l. mgr. 12. gr. laga nr. 50/1988 tekur aðeins til eiginlegra millilandaflutninga. Skilyrði þess að þetta ákvæði eigi við vöruflutninga innan lands er að um sé að ræða einn flutningssamning frá tilteknum stað innan lands til tiltekins erlends áfangastaðar eða öfugt. Sé þetta skilyrði uppfyllt getur farmflytjandi talið allt farmgjaldið til undanþeginnar veltu sinnar þótt hluti þess varði flutning innan lands. Kaupi aðalfarmflytjandi þjónustu undirverktaka við innanlandsflutninginn ber þeim síðarnefnda að leggja virðisaukaskatt á flutningsþjónustu sína. Sá skattur kemur sem innskattur hjá aðalfarmflytjanda. Til dæmis ber skipafélagi sem tekur að sér að flytja inn- og útflutningsvörur milli hafna innanlands fyrir millilandaskipafélag að innheimta virðisaukaskatt af þeirri þjónustu.
- Pakkhúsleiga. Geymsla á vöru er virðisaukaskattsskyld þjónusta. Ekki er hægt að jafna þóknun sem reiknuð er sérstaklega fyrir að geyma vöru í vörugeymslu skipafélags til fasteignaleigu.
- Kostur. Óheimilt er að telja til innskatts virðisaukaskatt vegna hvers konar fæðiskaupa skattaðila nema um sé að ræða sölu fæðis, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988. Þá er óheimilt að telja til innskatts virðisaukaskatt af aðföngum er varða hlunnindi til eiganda eða starfsmanna, sbr. 3. tölul. sömu greinar. Þessar reglur taka m.a. til innkaupa kosts um borð í skip. Í þessu sambandi skal tekið fram að sala vista til nota um borð í millilandafari er undanþegin skattskyldri veltu.
Virðingarfyllst,
f.h. ríkisskattstjóra
Ólafur Ólafsson.